top of page

Pizza með ítalskri salsiccia, rósmarín og chilihunangi

Ómótstæðileg súrdeigspizza með ítalskri salsiccia pylsu, rósmarín og chilihunangi sem tekur pizzuna upp á næsta stig!


Mér þykir þessi bragðsamsetning svo afskaplega ljúffeng og haustleg sem á vel við þessa dagana þegar laufin eru farin að skipta um lit og sólin farin að heilsa minna upp á okkur.


Hvað er þá betra en að gera vel við sig með rjúkandi góðri pizzu og glasi af rauðu?

Fyrir 4:

Súrdeigs pizzadeig, 2x 300 g / T.d. Frá Brikk Bakarí

Salsiccia grillpylsa, 200 g / Fæst frosin frá Tariello í Hagkaup, Krónunni og Melabúðinni

Pizzasósa, 200 ml

Mozzarella rifinn, 250 g

Rauðlaukur, 1 lítill

Rósmarín ferskt, 1 stilkur

Klettasalat, 25 g

Parmesan, eftir smekk

Chilihunang, eftir smekk (Uppskrift hér)

 
  1. Takið pizzadeigið úr kæli 2 klst fyrir eldun.

  2. Skerið utan af salsiccia pylsunum og losið kjötið í sundur. Steikið á heitri pönnu þar til kjötið er fulleldað. Geymið á disk til hliðar

  3. Stillið ofninn á hæsta hita (á pizzastillingu ef það er í boði).

  4. Sneiðið rauðlauk í þunnar sneiðar eftir smekk. Saxið rósmarín gróflega.

  5. Setjið bökunarplötu inn í ofn svo hún hitni vel á meðan unnið er í botninum. Hafið bökunarpappír kláran til að leggja deigið á.

  6. Setjið smá hveiti á hendurnar og notið hendurnar til þess að fletja botninn út í um 28 cm hring. Best er að vinna út frá miðju deigsins í átt að kantinum og reyna að hlífa um 2 cm af kantinum við sem mestu hnjaski. Þannig er gasinu í deiginu ýtt út í kantinn sem verður til þess að hann lyftist betur.

  7. Raðið sósu, salsiccia, osti, rósmarín og rauðlauk á pizzuna.

  8. Takið heita ofnplötuna úr ofninum (farið varlega) og dragið pizzzuna á ofnpappírnum á heita plötuna. Bakið í neðstu grind í ofni í 12-15 mín eða þar til pizzan er orðin fallega gyllt.

  9. Toppið pizzuna með klettasalati, rifnum parmesan og chilihunangi eftir smekk.

Commentaires


bottom of page