Ljúffengt og einfalt rauðvínslagað vegan bolognese með sveppum og geggjuðu heilhveiti pappardelle. Tómatsalatið og heslihneturnar gefa svo frísklegt bragð og smá kröns sem taka réttinn upp á næsta stig. Bragðgóð og holl máltíð fyrir þá sem eru vegan eða vilja minnka kjötneysluna!
Vegan hakk, 300 g / Hälsans kök
Sveppir, 100 g
Hvítlaukur, 1 rif
Timian, 0,5 tsk
Skalottlaukur, 40 g
Rauðvín, 60 ml
Niðursoðnir tómatar, 200 g
Kallo tómat og jurta teningur, 1 stk
Herbs de provence kryddblanda, 1 tsk
Hafrarjómi, 100 ml / Aito
Heilhveiti pappardelle, 200 g / Garofalo, fæst í Melabúðinni
Klettasalat, 30 g
Heslihnetur, 30 g
Steinselja, 5 g
Vegan parmesan eftir smekk
Smátómatar, 80 g
Basilíka fersk, 4 g
Vegan smjör, 1 msk
Afþýðið vegan hakk. Setjið vatn í pott með ríflegu magni af salti og náið upp suðu. Sneiðið sveppi og saxið skalottlauk.
Bræðið vegan smjör á pönnu ásamt smá olíu. Steikið sveppi þar til sveppirnir eru fulleldaðir og farnir að taka smá lit. Bætið skalottlauk og timian út á pönnuna og steikið þar til laukurinn mýkist.
Bætið vegan hakki út á pönnuna og steikið nokkrar mín. Pressið hvítlauk út á pönnuna og steikið í stutta stund.
Bætið rauðvíni út á pönnuna og látið sjóða niður um helming. Bætið niðursoðnum tómötum, tómat og jurta tening, herbs de provence og hafrarjóma út á pönnuna og látið malla rólega undir loki á meðan pasta er soðið. Smakkið til með salti.
Bætið pappardelle út í sjóðandi vatnið og sjóðið í 8-9 mín. Takið frá svolítið af pastavatni áður en vatninu er helt frá til þess að þynna sósuna ef þarf.
Saxið steinselju og grófsaxið heslihnetur. Hrærið pappardelle, steinselju og klettasalati saman við bolognese’ið á pönnunni. Toppið með heslihnetum og vegan parmesan osti eftir smekk.
Saxið basilíku og sneiðið tómata. Blandið saman og berið fram með til hliðar.
Comments