Tteokbokki er vinsæll réttur frá Kóreu sem er oft borinn fram sem meðlæti eða seldur stakur sem nasl og er t.d. sérstaklega góður með köldum bjór. Undirstaðan eru sívalningslaga hrísgrjónakökur (Garae-tteok ), spicy/sæt gochujang sósa, sesamfræ og vorlaukur. Algjört nammi!
Hér er mín útgáfa af þessum klassíska rétti og ég mæli sterklega með að þið prófið!
Fyrir 3-4 sem meðlæti/nasl:
Sívalningslaga hrísgrjónakökur, 500 g / Fæst hjá Fiska (Rice cakes frá Jongga)
Gochujang, 2 msk / Fæst hjá Fiska
Sojasósa, 1,5 msk
Hvítlaukur, 2 rif
Ferskur engifer rifinn, 1 tsk
Hrísgrjónaedik, 1 tsk
Hlynsíróp, 2 tsk
MSG, 1 tsk / Má sleppa en mæli með að nota! Fæst hjá Fiska
Maíssterkja, 1 tsk
Vorlaukur, 2 stk
Sesamfræ, 1,5 tsk
Skerið hverja hrísgrjónaköku í tvennt og setjið í pott. Hyljið hrísgrjónakökurnar með vatni og náið upp suðu. Slökkvið strax á hitanum og látið hrísgrjónakökurnar mýkjast í heitu vatninu í 5-7 mín á meðan sósan er undirbúin.
Pískið saman restina af hráefnunum fyrir utan vorlauk og sesamfræ ásamt 1 dl af vatninu sem hrísgrjónakökurnar liggja í. Smakkið til með salti ef þarf.
Hellið vatninu frá hrísgrjónakökunum og bætið sósunni út í pottinn með hrísgrjónakökunum ásamt helmingnum af sesamfræjunum. Hitið við miðlungshita og hrærið í með sleikju á meðan þar til sósan þykkist og hylur hverja hrísgrjónaköku vel.
Setjið í skál eða á disk. Sneiðið vorlauk og stráið yfir réttinn ásamt restinni af sesamfræjunum.
ความคิดเห็น