top of page

Tikka masala súrdeigspizza með chili og ristuðum möndlum

Indland og Ítalía mætast hér í syndsamlega góðri pizzu sem gjörsamlega tryllir bragðlaukana!


Það verða einhverjir töfrar til þegar Tikka masala sósan, bráðinn mozzarella osturinn og kryddaður kjúklingurinn blandast saman á súrdeigspizzabotninum.


Ég mæli ofsalega mikið með því að fólk fjárfesti í pizzasteini ef það er fyrir það að gera pizzu heima hjá sér. Gæðin á pizzunum ykkar munu rjúka upp, treystið mér!


Ef pizzasteinn er ekki á heimilinu má nota bökunarplötu en hitið hana þá samt upp fyrst í ofninum áður en pizzan er sett á plötuna.

Súrdeigs pizzadeig, 300 g / Ég notaði deigið frá Brikk

Kjúklingalæri, 180 g / 2 læri

Tandoori Masala kryddblanda, 0,5 msk / Kryddhúsið

Heilar möndlur, 2 msk

Tikka masala sósa, 120 ml / Patak´s

Mozzarella rifinn, 120 g

Rauðlaukur, eftir smekk

Ferskt chili, eftir smekk

Kóríander, eftir smekk

 
  1. Takið deigið úr kæli 2 klst áður en byrjað er að elda.

  2. Leggið kjúklingalæri í skál ásamt 1 msk af olíu , tandoori kryddblöndu og svolitlu salti. Láið marinerast í 20-30 mín.

  3. Leggið kjúklinginn á ofnplötu með bökunarpappír og bakið við 200°C á blæstri í um 30 mín eða þar til kjúklingurinn er orðinn fallega brúnaður. Komið möndlunum fyrir á ofnplötunni með kjúklingnum þegar um 7 mín eru eftir af eldunartímanum.

  4. Rífið kjúklinginn í sundur með 2 göfflum og saxið möndlur gróflega. Sneiðið rauðlauk í strimla.

  5. Forhitið pizzastein (eða ofnplötu) í botninum á ofni upp í 250°C með yfir og undirhita.

  6. Notið hendurnar til þess að fletja pizzabotninn út í um 28 cm hring og leggið svo á bökunarpappír. Best er að vinna út frá miðju deigsins í átt að kantinum og reyna að hlífa um 2 cm af kantinum við sem mestu hnjaski, en þannig er gasinu ýtt út í kantinn sem verður til þess að hann lyftist mun betur.

  7. Dreifið Tikka masala sósu yfir botninn og svo mozzarellaost yfir. Dreifið kjúkling, rauðlauk og ristuðum möndlum yfir og bakið pizzuna svo í 8-10 mín eða þar til kantarnir eru fallega gylltir.

  8. Sneiðið chili í sneiðar og saxið kóríander. Dreifið yfir pizzuna eftir að hún er skorin í sneiðar.

Comments


bottom of page