Hér kemur skemmtileg tilbreyting frá hefðbundnu föstudagspizzunni, með klassískum tex mex brögðum og að sjálfsögðu helling af osti!
Kjúklingabringa, 1 stk
Taco krydd, 1,5 msk
Salsasósa, 180 ml
Pizzadeig, 1 kúla
Pizzaostur, 150 g
Lárpera, 1 stk
Rauðlaukur, 1 stk
Maísbaunir, 40 g
Kóríander, 5 g
Sýrður rjómi, 50 ml
Hot sauce eftir smekk
Takið pizzadeigið úr kæli 2 klst fyrir eldun.
Skerið kjúklingabringu í litla bita og setjið í skál með olíu og taco kryddi. Blandið vel saman og látið marinerast í 2 klst.
Hitið olíu á pönnu og steikið kjúklinginn þar til hann er fulleldaður. Smakkið til með salti.
Setjið bökunarplötu inn í ofn svo hún hitni vel á meðan unnið er í botninum. Ef pizzasteinn er til á heimilinu er kjörið að nota hann í stað bökunarplötunnar. Hafið bökunarpappír kláran til að vinna deigið á.
Setjið hveiti á hendurnar og borðið og notið hendurnar til þess að fletja botninn út í um 15" hring. Best er að vinna út frá miðju deigsins í átt að kantinum og reyna að hlífa um 2 cm af kantinum við sem mestu hnjaski. Þannig er gasinu í deiginu ýtt út í kantinn sem verður til þess að hann lyftist betur.
Sneiðið rauðlauk. Dreifið salsasósu yfir pizzabotninn og stráið ostinum svo yfir. Dreifið kjúkling, rauðlauk og maísbaunum yfir pizzuna.
Takið heita ofnplötuna úr ofninum (farið varlega) og dragið pizzzuna á ofnpappírnum á heita plötuna. Bakið í neðstu grind í ofni í 12-15 mín eða þar til pizzan er orðin fallega gyllt og ljúffeng.
Sneiðið lárperu og saxið kóríander. Stráið yfir pizzuna þegar hún kemur úr ofninum og toppið með sýrðum rjóma og ykkar uppáhalds hot sauce (ég mæli með chipotle sósu).
Comments