Súkkulaðibita smákökur með flögusalti
- Snorri 
- Nov 1, 2021
- 2 min read
Við þurfum öll að eiga eina skothelda smáköku uppskrift upp í erminni sem er hægt að skella í með lítilli fyrirhöfn.
Þetta er mín skothelda uppskrift og það má leika sér með hvað maður setur í þessar kökur eftir hjartans list.
Kökurnar verða nokkuð þunnar og stökkar í könntunum en með fullkomnu biti í miðjunni og taka bragðlaukana á flug eftir að flögusalti er stráð yfir þær. Mæli með!

Gerir um 25 kökur:
Smjör, 220 g
Púðursykur, 200 g
Sykur, 100 g
Egg, 1 stk
Vanillufræ, 0,5 tsk / Rapunzel (eða fræ úr 1 vanillustöng)
Hveiti, 230 g
Borðsalt, 1,25 tsk
Lyftiduft, 0,5 tsk
Matarsódi, 0,25 tsk
Gott súkkulaði (helst í plötuformi), 250 g
Flögusalt, 2 msk
- Forhitið ofn í 180°C með yfir og undirhita. 
- Bræðið smjörið. Pískið vandlega saman bráðið smjör, púðursykur og sykur þar til allt hefur samlagast að fullu og blandan er búin að lýsast ögn að lit. Þetta tekur 1-2 mín kröftuglega með handafli. 
- Pískið eggið því næst saman við ásamt vanillufræjum þar til blandan er orðin glansandi og eggið hefur samlagast að fullu. 
- Bætið hveiti, borðsalti, lyftidufti og matarsóda út í skálina og hrærið vel í með góðri sleikju þar til til allt hefur samlagast. 
- Skerið súkkulaði niður í bita. Það er gott að hafa ágætis blöndu af stærri og smærri bitum. Bætið súkkulaðibitunum út í deigið og blandið vel saman. Ég mæli með að geyma svolítið af súkkulaðibitum til að dreyfa yfir kökurnar þegar þær koma heitar út ofninum, það gerir þær töluvert girnilegri. 
- Leggið ofnpappír á bökunarplötu. 
- Myndið 6 stk 35 gramma kúlur og raðið á bökunarplötu með góðu millibili þar sem kökurnar dreifa svolítið úr sér. 
- Bakið í 10 mín í miðjum ofni. Stráið sjávarsalti yfir kökurnar þegar þær koma úr ofninum og látið kólna í nokkrar mín á plötunni áður en kökurnar eru færðar á grind til að kólna. 
- Endurtakið með restina af deiginu. 






Comments