top of page

Súkkulaðibita smákökur með flögusalti

Við þurfum öll að eiga eina skothelda smáköku uppskrift upp í erminni sem er hægt að skella í með lítilli fyrirhöfn.


Þetta er mín skothelda uppskrift og það má leika sér með hvað maður setur í þessar kökur eftir hjartans list.


Kökurnar verða nokkuð þunnar og stökkar í könntunum en með fullkomnu biti í miðjunni og taka bragðlaukana á flug eftir að flögusalti er stráð yfir þær. Mæli með!

Gerir um 25 kökur:

Smjör, 220 g

Púðursykur, 200 g

Sykur, 100 g

Egg, 1 stk

Vanillufræ, 0,5 tsk / Rapunzel (eða fræ úr 1 vanillustöng)

Hveiti, 230 g

Borðsalt, 1,25 tsk

Lyftiduft, 0,5 tsk

Matarsódi, 0,25 tsk

Gott súkkulaði (helst í plötuformi), 250 g

Flögusalt, 2 msk


  1. Forhitið ofn í 180°C með yfir og undirhita.

  2. Bræðið smjörið. Pískið vandlega saman bráðið smjör, púðursykur og sykur þar til allt hefur samlagast að fullu og blandan er búin að lýsast ögn að lit. Þetta tekur 1-2 mín kröftuglega með handafli.

  3. Pískið eggið því næst saman við ásamt vanillufræjum þar til blandan er orðin glansandi og eggið hefur samlagast að fullu.

  4. Bætið hveiti, borðsalti, lyftidufti og matarsóda út í skálina og hrærið vel í með góðri sleikju þar til til allt hefur samlagast.

  5. Skerið súkkulaði niður í bita. Það er gott að hafa ágætis blöndu af stærri og smærri bitum. Bætið súkkulaðibitunum út í deigið og blandið vel saman. Ég mæli með að geyma svolítið af súkkulaðibitum til að dreyfa yfir kökurnar þegar þær koma heitar út ofninum, það gerir þær töluvert girnilegri.

  6. Leggið ofnpappír á bökunarplötu.

  7. Myndið 6 stk 35 gramma kúlur og raðið á bökunarplötu með góðu millibili þar sem kökurnar dreifa svolítið úr sér.

  8. Bakið í 10 mín í miðjum ofni. Stráið sjávarsalti yfir kökurnar þegar þær koma úr ofninum og látið kólna í nokkrar mín á plötunni áður en kökurnar eru færðar á grind til að kólna.

  9. Endurtakið með restina af deiginu.

Comentários


bottom of page