top of page

Sesar salat með beikoni, heimagerðum brauðteningum og geggjaðri dressingu

Brakandi ferskt Sesar salat með beikoni, heimagerðum brauðteningum og óheyrilega góðri dressingu.


Það sem tekur sesarsalat frá því að vera gott yfir að vera frábært er dressingin og þessi sesardressing slær ekki slöku við.


Í dressinguna nota ég Japanskt majónes sem er bæði sætara og örlítið súrara en venjulegt majónes. Sömuleiðis er það Japanska gert úr eggjarauðum ólíkt venjulegu majónesi sem er gert úr bæði rauðunni og hvítunni og er það því bæði þykkara, mýkra og með meira eggjabragði sem smellpassar fyrir þessa dressingu. Ansjósurnar bæta svo við salti og umami sem tekur dressinguna upp á næsta stig. Þetta salat er frábær máltíð fyrir 2 þegar maður vill eitthvað í létt en ljúffengt eða þá sem forréttur fyrir 4.

Kjúklingabringur, 2 stk

Töfrakrydd, 1 msk / Pottagaldrar

Romaine salat, 1 meðalstór haus

Kirsuberjatómatar, 80 g

Rauðlaukur, 1 lítill

Súrdeigsbrauðsneiðar, 2 stk

Hvítlauksduft, 0,5 tsk

Beikonsneiðar, 6 stk

Ansjósur, 2 stk / Fást í dós í Melabúðinni

Hvítlaukur, 4 g / Eitt rif

Parmesan, 15 g + meira eftir smekk yfir salatið

Japanskt majónes, 60 g / Má vera venjulegt

Hvítvínsedik, 0,5 msk

  1. Stillið ofn á 180°C með blæstri.

  2. Veltið kjúklingabringum upp úr smá olíu og kryddið með töfrakryddi. Látið marinerast á meðan unnið er í öðru.

  3. Dreifið beikonsneiðum yfir ofnplötu með bökunarpappír og bakið í miðjum ofni í 12-15 mín (fylgist vel með svo beikonið brenni ekki við).

  4. Rífið súrdeigsbrauðið í bita og veltið upp úr ólífuolíu, salti og hvítlauksdufti. Dreifið yfir ofnplötu og bakið í neðstu grind í ofni í um 10 mín eða þar til brauðið er orðið fallega gyllt.

  5. Rífið 15 g af parmesan með fínu rifjárni og pressið hvítlauksrif. Maukið saman ansjósur, rifinn parmesanost, pressaðan hvítlauk, majónes, hvítvínsedik og 0,5 msk af vatni með töfrasprota þar til allt hefur samlagast að fullu. Smakkið til með salti ef þarf.

  6. Hitið smá olíu á pönnu við meðalháan hita og steikið kjúklingabringurnar í 2,5 mín á hvorri hlið. Færið kjúklinginn í eldfast mót og bakið í miðjum ofni í 15 mín eða þar til kjúklingurinn er hvítur í gegn og fulleldaður.

  7. Leyfið kjúklingnum að hvíla og sneiðið ekki fyrr en rétt áður en maturinn er borinn fram so hann haldist safaríkur.

  8. Saxið romaine salat gróflega, sneiðið rauðlauk, skerið tómata í bita, skerið beikon í bita.

  9. Setjið romaine salat, rauðlauk, brauðteninga, tómata og beikon í stóra skál ásamt rúmlega helmingnum af dressingunni og blandið vel saman. Dreifið kjúkling yfir og rífið parmesanost yfir eftir smekk.

  10. Berið fram með restinni af dressingunni til hliðar.

コメント


bottom of page