Ljúffengar eggjanúðlur með krydduðum kjúklingabringum, baby pak choi, fullt af steiktu grænmeti og sesam- sojasósu sem rífur pínulítið í. Þetta er búinn að vera minn "go-to" kvöldmatur upp á síðkastið þegar ég er að reyna að borða hollan mat með fullt af grænmeti og miklu prótíni sem tekur sirka 30 mín frá byrjun til enda.
Fyrir 2:
Kjúklingabringur, 2 stk
Eðal kjúklingakrydd, 1,5 msk / Pottagaldrar
Eggjanúðluhreiður, 150 g (3 stk ) / Blue dragon
Rauð paprika, 1 stk
Spergilkál, 150 g
Laukur, 1 stk
Hvítlaukur, 2 rif
Sojasósa, 0,6 dl
Sesamolía, 1,5 msk
Engifermauk, 1 tsk / eða rifinn ferskur engifer, en notið þá aðeins minna
Srirachasósa, 1 msk (eða eftir smekk)
Baby pak choi, 6 stk
Kóríander, 5 g
Ristuð sesamfræ, 1 msk
Vorlaukur, 2 stk
Forhitið ofn í 180°C með blæstri og setjið vatn í pott og náið upp suðu.
Leggið kjúklingabringurnar á milli tveggja laga af bökunarpappírs og berjið með td litlum potti þar til bringurnar eru jafnar að þykkt. Setjið í skál með svolítilli olíu og kjúklingakryddi og blandið vel saman. Látið standa á meðan sósan er útbúin og grænmetið er skorið.
Hrærið saman sojasósu (geymið 2 tsk), sesamolíu, sriracha og engifermauki.
Skerið papriku og spergilkál í bita. Sneiðið lauk.
Hitið olíu á pönnu við meðalháan hita. Steikið kjúklingabringurnar í 2,5 – 3 mín á hvorri hlið og færið svo í eldfast mót. Hellið olíunni úr pönnunni yfir bringurnar og bakið svo í 15 mín eða þar til kjúklingurinn er hvítur í gegn og fulleldaður.
Stillið pönnuna á miðlungshita og steikið grænmetið með smá salti þar til laukurinn er glær og spergilkálið hefur mýkst. Pressið hvítlauk út á pönnuna og steikið þar til laukurinn fer að ilma. Sjóðið pak choi og núðlur á meðan grænmetið er steikt.
Bætið pak choi út í pottinn með sjóðandi vatninu og sjóðið í 2-3 mín, þar til stilkurinn hefur mýkst aðeins. Færið í skál og veltið upp úr restinni af sojasósunni.
Bætið núðlum út í pottinn með sjóðandi vatninu og eldið eftir leiðbeiningum frá framleiðanda.
Bætið núðlum út á pönnuna ásamt sósunni og blandið vel saman. Látið malla í stutta stund og hrærið reglulega þar til allt er vel þakið sósu.
Sneiðið vorlaukinn þunnt, saxið kóríander og skerið kjúklingabringurnar í bita. Bætið kjúkling út á pönnuna ásamt vorlauk og kóríander og blandið saman. Toppið með sesamfræjum.
Commentaires