top of page

Rjómalagað linguine með risarækjum og ferskum kryddjurtum

Hvítlauksmarineraðar rækjur og linguine pasta í silkimjúkri sósu úr tómötum, rjóma, hvítvíni og parmesan. Þetta er algjörlega ómótstæðilegur pastaréttur sem mun án efa slá í gegn á kvöldmatarborðinu þínu!

Fyrir 3:

Risarækjur, 400 g

Tariello linguine, 250 g / Fæst í Hagkaup, Melabúðinni og Frú Laugu

Laukur, 1 stk

Hvítlaukur, 3 rif

Fiskiteningur, 0,5 stk

Tómat og jurtateningur, 0,5 stk / Kallo, fæst í lífrænu deildinni í Nettó

Tómatpúrra, 2 msk

Niðursoðnir tómatar, 400 g

Hvítvín, 1 dl

Rjómi, 80 ml

Ítalskt sjávarréttakrydd, 1 msk / Pottagaldrar

Fersk steinselja, 5 g

Ferkst basil, 5 g

Parmesan ostur, 20 g

 
  1. Afþýðið og þerrið rækjur og setjið svo í skál með smá olíu. Pressið 1 hvítlauksrif saman við og látið marinerast í stutta stund.

  2. Setjið ríflegt magn af vatni í pott með smá salti og náið upp suðu.

  3. Saxið lauk nokkuð smátt.

  4. Hitið smá olíu í steypujárnspotti eða stórri pönnu, steikið rækjurnar þar til þær eru fulleldaðar (3-4 mín) og færið þær svo yfir á disk og hyljið með álpappír.

  5. Steikið saxaðan lauk við miðlungshita þar til hann er glær og mjúkur. Pressið 2 hvítlauksrif út í pottinn og steikið áfram í 1 mín.

  6. Bætið tómatpúrru út í pottinn og steikið í nokkrar mín.

  7. Hækkið hitann á pottinum, bætið hvítvíni út í og látið vínið sjóða niður um helming.

  8. Bætið niðursoðnum tómötum, rjóma, ítölsku sjávarréttakryddi, 0,5 fiskitening og 0,5 tómat & jurtatening út í pottinn. Látið sósuna malla undir loki á meðan linguine er soðið.

  9. Sjóðið linguine eftir leiðbeiningum á pakka.

  10. Rífið helminginn af parmesan ostinum saman við sósuna og bætið við smjörklípu. Smakkið til með salti ef þarf.

  11. Sigtið vatnið frá linguine'inu og bætið út í pottinn og veltið upp úr sósunni.

  12. Saxið basil og steinselju smátt.

  13. Blandið rækjunum ásamt vökvanum af disknum saman við linguine'ið og sósuna í pottinum ásamt söxuðum kryddjurtum og rífið restina af parmesan ostinum yfir.

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Tariello ehf

bottom of page