top of page

Ribeye steikur með hvítlauks-tómatsmjöri og parmesan kartöflum

Mér þykir fátt betra en góð steik þegar ég vill gera vel við mig og mína og þá verður góð Ribeye steik oftast fyrir valinu.


Aðalstjarnan í þessari uppskrift er þó hvítlauks-tómatsmjörið, en það er geggjað bæði á rautt kjöt og kjúkling en svo er líka ótrúlega gott að smyrja því á t.d. baguette sneiðar og bera fram til hliðar með pasta osfr.


Það þarf ekki mikið til að gera þetta smjör. Bara smjör við stofuhita, tómatpúrru, smá hvítlauk og salt, en það er líka virkilega gott að setja t.d. smá saxað rósmarín og/eða steinselju með.

Fyrir 2:

Ribeye steikur, 2x 250 g

Ósaltað smjör, 50 g / Við stofuhita

Tómatpúrra, 15 g

Hvítlaukur, 2,5 g (1 lítið rif)

Kartöflur, 400 g

Parmesan ostur, 25 g

Steinselja, 4 g

Romaine salat, 70 g

Kirsuberjatómatar, 5 stk

Rauðlaukur, ¼ lítið stk

Balsamic edik, 1 msk

Ólífuolía, 2 msk

Hunang, ½ tsk

 
  1. Stappið saman tómatpúrru, 50 g smjör og hvítlauk. Smakkið til með salti og rúllið tómatsmjörinu svo þétt inn í plastfilmu. Geymið í kæli.

  2. Takið kjötið úr kæli 1 klst áður en á að elda það.

  3. Stillið ofn á 180 °C með blæstri.

  4. Skerið kartöflurnar í bita og veltið upp úr olíu, salti og pipar. Dreifið kartöflunum yfir ofnplötu með bökunarpappír og bakið í 30-35 mín eða þar til kartöflurnar eru orðnar fallega gylltar. Færið kartöflurnar í skál, saxið steinselju og rífið um 10 g af parmesanosti og hrærið saman við kartöflurnar.

  5. Skerið eða rífið romaine salat eftir smekk. Skerið rauðlauk í þunnar sneiðar, skerið tómata í bita og notið skrælara eða ostaskera til þess að gera þunnar parmesan sneiðar úr restinni af parmesanostinum.

  6. Pískið saman balsamic edik, ólífuolíu, hunang og smá salt.

  7. Setjið grænmetið í skál og veltið upp úr salatdressingunni rétt áður en maturinn er borinn fram.

  8. Nuddið nautakjötið með olíu og saltið og piprið rausnarlega. Hitið pönnu þar til hún er orðin mjög heit. Bætið smá olíu út á pönnuna og því næst kjötinu. Látið steikurnar liggja óhreyfðar í 2 mín á annari hliðinni, snúið þeim og látið liggja óhreyfðar í aðrar 2 mín. Bætið smjörklípu út á pönnuna og steikið steikurnar áfram í um 2 mín (6 mín samtals) fyrir medium rare steikingu en snúið þeim á um 30 sek fresti.

  9. Skerið tómatsmjörið í skífur og berið fram með steikunum.

Comments


bottom of page