Hér er kominn pastaréttur sem á alveg örugglega eftir að verða fastagestur á matseðli fjölskyldunnar!
Hvítauksmarineraðar risarækjur, stökkt beikon, hvítvínslöguð sósa úr rjóma og tómötum, smá chiliflögur til að gera þetta spennandi og svo hellingur af ferskri steinselju og parmesan. Algjört nammi!
Fyrir 2-3
Risarækjur, 400 g
Beikon, 7 sneiðar
Spagetthi, 220 g
Laukur, 100 g
Hvítlaukur, 3 rif / 12 g sirka
Chiliflögur, 0,5 tsk
Niðursoðnir tómatar, 400 g
Tómatpúrra, 30 ml
Ítalskt pastakrydd, 20 ml / Pottagaldrar
Hvítvín, 1 dl
Rjómi, 0,5 dl
Fiskiteningur, 1/2 stk / Knorr
Parmesan, 30 g
Steinselja, 20 g
Stillið ofn á 180°C með blæstri.
Setjið ríflegt magn af vatni í pott með smá salti og náið upp suðu.
Afþýðið og þerrið risarækjur. Setjið rækjurnar í skál með skvettu af ólífuolíu og pressið 2 hvítlauksrif saman við. Látið marinerast í 10-15 mín.
Raðið beikonsneiðum á ofnplötu með bökunarpappír og bakið í um 13-14 mín í miðjum ofni eða þar til beikonið er fulleldað. Byrjið að fylgjast með beikoninu eftir 10 mín svo það brenni örugglega ekki við. Saxið beikonið gróflega og setjið til hliðar.
Saxið lauk nokkuð smátt.
Setjið um 1 tsk af olíu á pönnu stillta á meðalháan hita. Steikið rækjurnar í um 2 mín á hvorri hlið (varist þó að ofelda rækjurnar). Setjið rækjurnar á disk og geymið til hliðar.
Bætið smá olíu á pönnuna ef þarf og steikið saxaðan lauk við miðlungshita þar til hann er glær og mjúkur. Pressið hvítlauksrif út á pönnuna og steikið áfram í 1 mín.
Hækkið hitann á pönnunni og bætið hvítvíni út á pönnuna. Látið vínið sjóða niður um helming og bætið þá tómatpúrru út á pönnuna og steikið í 1-2 mín.
Bætið niðursoðnum tómötum, rjóma, chiliflögum, ítölsku pastakryddi og 1/2 fiskitening út á pönnuna. Látið sósuna malla og sjóða niður í um 10 mín á meðan spaghetti er soðið.
Sjóðið spaghetti eftir leiðbeiningum á pakka.
Saxið steinselju smátt og rífið helminginn af parmesan ostinum saman við sósuna. Smakkið til með salti.
Sigtið vatnið frá spaghettíinu og bætið út á pönnuna og veltið upp úr sósunni.
Hrærið rækjunum, beikoni og steinselju saman við spaghettíið og sósuna á pönnunni og rífið restina af parmesan ostinum yfir.
Comments