top of page

Grísasíða með stökkri puru, kartöflumús, villisveppasósu og haustlegu salati.

Updated: Dec 22, 2021

Það er fátt hátíðlegra en gómsæt grísasíða með vel stökkri puru, góðri rjómalagaðri sósu og frískandi salati. Það er hægt að gera nokkra hluti til þess að hjálpa til við að tryggja sér fullkomna puru en það er meðal annars best að reyna að velja vel fitusprengdan bita og taka sér nægan tíma og vanda sig við að skera rákir í kjötið. Best er líka að taka grísasíðuna úr umbúðunum og láta standa inni í ísskáp í amk 4 tíma áður en það á að elda hana, en það þurrkar fituna aðeins og hjálpar til við að fá stökka og ljúffenga puru þegar kjötið er eldað.

Fyrir 4:

Grísasíða með puru, 1,5-2kg

Kartöflur, 1 kg / Ratte ef þær fást

Rjómi, 600 ml

Smjör, 40 g

Villisveppaostur, ½ stk / 75 g

Sveppateningur, 1 stk / Kallo

Herbs de provence, 0,5 msk

Rósakál, 200 g

Fennel, 250 g

Grænt epli, ½ stk

Heslihnetur, 60 g

Trönuber, 40 g

Majónes, 1 msk

Sýrður rjómi, 1 msk

Hunang, 1 tsk

Dijon sinnep, 1 tsk

Eplaedik, 1 tsk

 
  1. Stillið ofn á 180 °C með yfir og undir hita.

  2. Notið mjög beittan hníf til þess að skera djúpar rákir með um 0,5 cm millibili í fituna á grísasíðunni en varist að fara það djúpt að skorið sé í kjötið. Þetta er best að gera á meðan kjötið er enn kalt og fitan stinn.

  3. Saltið fituhliðina á síðunni ríflega og nuddið með ólífuolíu svo saltið fari ofan í skurðina. Saltið og piprið restina af bitanum aðeins líka og nuddið með smá olíu.

  4. Leggið bitann með fituhliðina upp á ofngrindina í miðjum ofninum og setjið ofnskúffu með um 1 líter af vatni í hilluna fyrir neðan til þess að grípa vökvan sem mun renna af kjötinu.

  5. Bakið kjötið í 2-2,5 klst eða þar til kjötið er fulleldað og mjúkt og puran er búin að taka fallegan lit og er orðin stökk. Hækkið hitann í 220 gráður og bakið í 10-20 mín til viðbótar til að fá enn stökkari puru, en fylgist vel með á þessum tímapuntki svo puran brenni ekki. Leyfið kjötinu að hvíla í um 10 mín áður en það er borið fram og skorið.

  6. Setjið 500 ml af rjóma í lítinn pott ásamt sveppateningnum og herbs de provence kryddblöndu. Rífið sveppaostinn saman við með rifjárni og hitið við vægan hita þar til osturinn er bráðnaður. Smakkið til með salti ef þarf og þykkið með sósujafnara eftir smekk.

  7. Sjóðið kartöflur í söltu vatni þar til mjúkar í gegn. Skrælið kartöflurnar og pressið svo með kartöflupressu eða stappið með kartöflustappara. Hrærið smjöri og rjóma saman við þar til hæfilegri áferð er náð. Smakkið til með salti og pipar.

  8. Skerið botninn af rósakálinu og hendið. Sneiðið fennel og rósakál mjög þunnt, helst með mandolíni. Skerið epli í stafi svipaða að stærð og eldspýtur. Grófsaxið hnetur. Blandið öllu saman í skál ásamt trönuberjum.

  9. Hrærið saman majónesi, sýrðum rjóma, hunangi, sinnepi og eplaediki ásamt smá salti. Berið dressinguna fram til hliðar með salatinu.

Comentarios


bottom of page