top of page

Nautalund með heimalagaðri bearnaise sósu og bökuðum sætkartöflum

Nautalund og bearnaise. Það þarf ekki að segja mikið meira!


Sumir píska bearnaise sósuna sína með handafli og ég tek að ofan fyrir þeim fyrir að nenna því. Mér þykir auðveldast að gera hana í Kitchen-aid vélinni minni en það gerir allt ferlið mun þægilegra og einfaldara.

Fyrir 2:

Nautalund, 2 x 250 g

Ósaltað smjör, 250 g

Eggjarauður, 4 stk

Bernaise essence, 2 tsk

Nautakraftur, 2 tsk / Oscar

Estragon, 2 tsk

Sætar kartöflur, 400 g

Rósmarín, 1 stilkur

Radísa, 1 stk

Agúrka, 60 g

Smátómatar, 60 g

Salatblanda, 30 g

Fetaostur í kryddlegi, 40 g

 
  1. Takið kjötið úr kæli sirka 30 mín áður en það á að elda það.

  2. Hrærið eggjarauður og bernaise essence í hrærivél í nokkrar mín þar til blandan er orðin ljós og létt. Bætið þá krafti út í og hrærið áfram.

  3. Bræðið smjör við vægan hita þar til maður getur rétt naumlega sett fingurinn ofan í smjörið vegna hita. Passið að smjörið sjóði ekki.

  4. Aukið hraðann á vélinni og hellið smjörinu í mjög rólegri bunu saman við eggjarauðurnar þar til allt hefur samlagast. Varist að hella of hratt eða of miklu í einu því þá getur sósan skilið sig. Bætið estragon út í og látið vélina ganga í um 30 sek. Smakkið til með salti.

  5. Færið sósuna í lítinn pott eða skál og hyljið með loki þar til maturinn er borinn fram, en sósuna má ekki hita aftur upp.

  6. Stillið ofn á 200 °C með blæstri, skerið sætar kartöflur í bita og saxið um 2 tsk af rósmarín.

  7. Veltið sætu kartöflunum upp úr smá olíu, salti og söxuðu rósmarín, dreifið svo yfir ofnplötu með bökunarpappír og bakið í um 30 mín í neðstu grind í ofni en hrærið þegar tíminn er hálfnaður.

  8. Saltið og piprið steikurnar rausnarlega.

  9. Hitið stál eða steypujárnspönnu við frekar háan hita þar til það fer að rjúka af pönnunni.

  10. Bætið um 2 tsk af olíu og smá smjörklípu út á pönnuna. Setjið steikurnar því næst út á pönnuna og hreyfið ekki við þeim í 2 mín. Snúið steikunum og steikið í 2 mín á hinni hliðinni. Færið pönnuna svo rakleiðis inn í miðjan ofn og bakið í um 5-6 mín fyrir medium rare. Tíminn fer eftir þykkt kjötsins og því er gott að notast við kjöthitamæli til að vera viss um að réttum kjarnhita hafi verið náð.

  11. Sneiðið radísur, tómata og agúrku. Rífið salatblöndu eftir smekk og setjið saman í skál með fetaosti.

bottom of page