top of page

Hægeldað nauta Ragu með pappardelle pasta

Updated: Jun 8, 2020

Það er oft sagt að góðir hlutir gerast hægt og í þessu tilviki á það svo sannarlega við.


Hér er nautakjöt hægeldað í bragðmikilli sósu þar til það er orðið lungamjúkt og losnar auðveldlega í sundur, borið fram með pappardelle pasta og helling af parmesan osti. Kjörið verkefni í eldhúsinu þegar gera á vel við sig!


Ég kaupi nautabógklumpinn í Costco en þar er hann seldur í sneiðum sem er auðvelt að skera niður í minni bita og brúna. Sömuleiðis mæli ég með því að splæsa í pappardelle pastað frá Filotea þar sem það inniheldur egg sem gerir það nokkuð teygjanlegt og það þolir því betur að vera velt upp úr kjötsósunni í lokin auk þess að vera mjög bragðgott.

Fyrir 4:

Nautabógklumpur, 1,2 kg / Fæst í Costco

Pappardelle pasta, 250 g / Filotea, fæst í Hagkaup

Sellerí, 60 g

Gulrót, 120 g

Laukur, 100 g

Hvítlaukur, 3 rif

Tómatpúrra, 3 msk

Rauðvín, 250 ml

Nautakraftur, 2 teningar

Provance krydd, 1 msk

Timian, 1 tsk

San Marzano tómatar, 2 dósir

Balsamicgljái, 2 tsk

Fersk steinselja, 15 g

Parmesan, 30 g + meira eftir smekk

 
  1. Stillið ofn á 100 °C með yfir og undir hita.

  2. Saxið lauk, gulrætur og sellerí smátt.

  3. Skerið nautkjötið í jafnstóra bita. Þerrið kjötið ef þess þarf og saltið og piprið smá.

  4. Brúnið kjötið vel á öllum hliðum við frekar háan hita í steypujárnspotti, sirka 5 mín. Færið kjötið svo á disk til hliðar og geymið.

  5. Lækkið hitann og bætið lauk, gulrótum og sellerí út í pottin ásamt smá salti og steikið þar til grænmetið mýkist aðeins, sirka 5 mín.

  6. Pressið hvítlauk saman við og steikið þar til hvítlaukurinn fer að ilma. Bætið tómatpúrru út í og steikið í nokkrar mín. Hækkið hitann, bætið víni út í pottinn og sjóðið niður í nokkrar mín.

  7. Bætið kjötkrafti, provance kryddi, timian, balsamicgljáa og San Marzano tómötum út í en kremjið tómatana í sundur áður en þeir fara í pottinn.

  8. Bætið kjötinu aftur út í pottinn og bætið við smá vatni ef þarf, en vökvinn á að hylja kjötið sirka 3/4 leið.

  9. Setjið pottinn inn í 120 gráðu heitann ofn í 3,5-4 tíma eða þar til kjötið er orðið mjúkt og losnar auðveldlega í sundur.

  10. Takið pottinn úr ofninum og fleitið fitunni sem hefur safnast saman af sósunni ef þarf. Fjarlægið kjötið úr pottinum og notið 2 gaffla til þess að rífa kjötið í sundur.

  11. Setjið pottinn á hellu og stillið á vægan hita. Bætið kjötinu aftur út í pottinn ásamt smjörklípu og 30 g af rifnum parmesanosti og látið malla í 30 mín án loks Þar til sósan þykkist hæfilega.

  12. Sjóðið pappardelle pasta eftir leiðbeiningum á pakka en takið um 1 dl af pastavatninu frá og bætið við kjötsósuna eftir þörfum ef sósan verður of þykk og látið sjóða í smástund til þess að virkja sterkjuna í pastavatninu.

  13. Smakkið kjötsósuna til með salti og blandið pastanu svo saman við ásamt saxaðri steinselju og meiri parmesanosti eftir smekk.

댓글


bottom of page