top of page

Nauta "Kebab" pizza í snatri

Á leiðinni heim úr vinnunni í dag fór ég allt í einu í þvílíkt pizzastuð en var ekki alveg í stuði fyrir það að gera deig frá grunni svo ég greip með mér heilhveiti pizzadeig frá Wewalka sem þarf ekki að gera neitt við nema að rúlla út.


Ég hef smakkað margar tegundir af pizzadeigum sem þarf einungis að rúlla út og hefur ekki þótt þau neitt sérstaklega góð, en þessi heilhveiti Wewalka botn er þó klárlega undantekningin á reglunni því hann er virkilega bragðgóður og bakast mjög vel. Það má taka það fram að þetta er ekki kostuð færsla, ég er bara mjög hrifinn af þessum tiltekna botni.


Ég var í stuði fyrir eitthvað annað en venjulega pizzu með pepperóní og ákvað að fara aðeins út af hefðbundnum slóðum og fór með bragðsamsetninguna meira í áttina að kebab, en þetta kom fáránlega vel út þó ég segji sjálfur frá.


Þessi uppskrift er fyrir 1 en hana má auðveldlega tvöfalda með 2 pizzadeigum eða þinni eigin uppskrift að deigi ef þú ert metnaðarfyllri en ég var í kvöld.


 

Ungnautahakk, 160 g

Cumin, 1 tsk

Hvítlauksduft, 1/2 tsk

Reykt paprika, 1/2 tsk

Turmeric, 1/2 tsk

Oregano, 1/2 tsk

Kanil, 1/4 tsk

Salt & pipar

Wewalka whole grain pizzadeig, 1 stk

Mutti pizzasósa, 1/2 lítil dós

Mozzarella ostur, 75 g

Rauðlaukur, 1/4 stk

Tómatur, 1/2 stk

Kóríander, 2-3 stilkar

Sambal oelek, 1 msk

Hvítlauks aioli, 1-2 msk

 

  1. Stillið ofninn á 200 °C blástur.

  2. Steikið hakkið við frekar háan hita og kryddið með kryddinu. Smakkið til með salti og pipar.

  3. Skerið lauk í strimla og skerið tómat í bita.

  4. Rúllið deiginu út á ofnplötu og smyrjið með pizzasósu. Dreifið osti yfir og svo hakki, tómötum og lauk.

  5. Bakið í miðjum ofni í um 15 mín eða þar til kantarnir á deiginu eru farnir að brúnast og pizzan farin að taka fallegan lit.

  6. Dreifið hvítlauks aioli, sambal oelek og söxuðum kóríander yfir pizzuna þegar hún kemur úr ofninum.


bottom of page