Fljótlegt mezze rigatoni bolognese í rjómalagaðri pestósósu með ristuðum panko raspi
- Snorri 
- Oct 16, 2023
- 2 min read
Hér er á ferðinni fullkomin pastauppskrift til að elda í í miðri viku þegar tíminn er af skornum skammti en kolvetnaþörfin sterk.
Rjómalöguð pestósósan verður silkimjúk þegar pastað fær að malla í stutta stund í henni og ristaði panko raspurinn gefur virkilega skemmtilegt kröns og gerir hvern einasta bita skemmtilegan. Mæli mikið með! Ég er persónulega mjög hrifinn af fennel og chili í pastaréttum en það má að sjálfsögðu nota þessi krydd eftir smekk og verður rétturinn engu verri fyrir vikið.

Fyrir 2:
Ungnautahakk, 300 g
Mezze rigatoni, 200 g / Ég notaði Rummo
Niðursoðnir tómatar, 200 g / Ég notaði Mutti
Rjómi, 80 ml
Rautt pestó, 50 g
Tómatpúrra, 1 msk
Hvítlauksduft, 0,5 tsk
Kjötkraftur, 1 tsk / Ég notaði Oscar
Fennelduft, 0,5 tsk / Má sleppa
Chiliflögur, 0,25 tsk / Má sleppa Panko brauðraspur, 0,5 dl
Steinselja, 6 g Parmesanostur, 20 g
- Setjið vatn í pott með ríflegu magni af salti og náið upp suðu. 
- Hitið pönnu við meðalháan hita og bætið smá olíu út á. Bætið panko út á pönnuna og ristið þar til hann hefur tekið fallegan lit. Takið til hliðar og þurrkið létt úr pönnunni. 
- Bætið olíu út á pönnuna og steikið kjötið þar til það er fulleldað. 
- Bætið tómatpúrru, kjötkrafti, fenneldufti, chiliflögum og hvítlauksdufti út á pönnuna og steikið í stutta stund. 
- Bætið niðursoðnum tómötum, pestó og rjóma út á pönnuna, blandið vel saman og lækkið hitann ögn. Rífið helminginn af parmesanostinum saman við og látið svo malla undir loki á meðan pasta er soðið. Takið lokið af pönnunni þegar nokkrar mín eru í að pastað sé tilbúið og sjóðið sósuna aðeins niður. Smakkið til með salti. 
- Bætið pasta út í pottinn með sjóðandi vatninu og sjóðið eftir leiðbeiningum á umbúðum. 
- Sigtið vatnið frá pastanum og og blandið saman við kjötsósuna á pönnunni. Látið allt malla saman í stutta stund. Sterkjan úr pastanu mun þykkja sósuna enn frekar. 
- Rífið restina af parmesanostinum saman við pastaréttinn og saxið steinselju saman við. Blandið vel saman. 
- Toppið með panko raspi og berið fram með auka parmesanosti og fersku salati til hliðar. 







Comments