Lúxus mexíkósk kjúklingasúpa með nachos, rifnum osti og lárperu
- Snorri
- Feb 3, 2022
- 2 min read
Hér er mín útgáfa af uppáhalds súpu landsmanna.
Við höfum öll fengið mexíkóska kjúklingasúpu ótal oft í fermingum og afmælum, enda algjör "crowd pleaser". Mér þykir best að nota temmilega sterka salsa sósu í súpuna ásamt smá chipotle mauki, en það má að sjálfsögðu nota milda salsa og sleppa chipotle maukinu ef þú vilt mildari og barnvænni súpu.

Fyrir 4:
Kjúklingalæri skinn & beinlaus, 600 g
Mexíkóveisla, 1 msk / Pottagaldrar
Rauðlaukur, 1 stk
Paprika rauð, 1 stk
Tómatpúrra, 4 msk
Taco krydd, 4 msk / Santa Maria
Kjúklingateningur, 1-1,5stk / Kallo
Hvítlauksduft, 2 tsk
Niðursoðnir tómatar, 400 g
Salsa sósa, 250 ml
Chipotle mauk, 2 tsk / Santa Maria - Má sleppa
Rifinn ostur, 90 g
Nachos, 100 g
Sýrður rjómi 18%, 120 ml
Lárpera, 2 stk
Kóríander, 10 g
Philadelphia rjómaostur , 150 g
Setjið kjúklingalæri í skál með olíu, Mexíkóveislu og 2 tsk af flögusalti. Blandið vel saman og látið marinerast í 30 mín.
Forhitið ofn í 180°C með blæstri. Raðið kjúklingalærum á ofnplötu með bökunarpappír og bakið í miðjum ofni í 30-35 mín.
Saxið papriku og rauðlauk (geymið smá til að toppa súpuna með). Hitið smá olíu í potti og steikið papriku og rauðlauk við miðlungshita þar til laukurinn er farinn að mýkjast. Bætið tómatpúrru, taco kryddi, kjúklingatening og hvítlauksdufti út í og steikið í 1-2 mín. Bætið salsa sósu, chipotle mauki, niðursoðnum tómötum og 1 líter af vatni út í. Hrærið vel saman og látið malla með loki í um 15 mín. Smakkið til með meiri kjúklingakraft ef þarf.
Bætið rjómaost út í pottinn og látið malla við vægan hita í um 5-10 mín og hrærið vandlega. Smakkið súpuna til með salti og pipar ef þess þarf. Notið tvo gaffla til þess að rífa kjúklingalærin í sundur og bætið út í súpuna.
Skerið lárperu í bita og saxið kóríander eftir smekk. Toppið súpuna með rifnum osti, kóríander, rauðlauk, lárperu og nachos flögum.
Comentarios