Þetta er akkúrat það sem maður þarf þessa dagana.
Dásamleg mexíkósk kínóaskál sem nærir bæði líkama og sál. Stútfull af góðri næringu og algjör bragðbomba. Svo er hún líka vegan í þokkabót!
Kínóa, 1 dl
Mexíkóveislu kryddblanda, 1 tsk / Pottagaldrar
Sæt kartafla, 300 g
Hvítauksduft, 0,5 tsk
Reykt paprika, 0,5 tsk
Vegan majónes, 60 ml
Chipotle mauk, 1 tsk / Santa Maria
Smátómatar, 80 g / t.d. Piccolo
Rauðlaukur, 20 g
Radísur, 2 stk
Ferskt jalapeno, 1 stk
Svartar baunir (úr dós), 40 g
Maísbaunir, 30 g
Salatblanda, 30 g
Lárpera, 1 stk
Límóna, 1 stk
Kóríander eftir smekk
Forhitið ofn í 200°C með blæstri.
Setjið kínóa, 175 ml af vatni, Mexíkóveislu kryddblöndu og svolítið salt í lítinn pott. Náið upp suðu og lækkið hitann svo það rétt kraumi í vatninu. Látið kínóa malla undir loki í 15 mín, takið þá af hitanum og látið standa undir loki í 10 mín.
Skolið svartar baunir undir köldu vatni og hrærið svo saman við soðið kínóa.
Skerið sæta kartöflu í bita og veltið upp úr olíu, salti, hvítlauksdufti og reyktri papriku. Dreifið yfir ofnplötu með bökunarpappír og bakið í miðjum ofni í 30 mín. Hrærið í þegar tíminn er hálfnaður.
Hrærið chipotle mauki saman við vegan majónes og 1 msk af vatni. Smakkið til með salti.
Sneiðið tómata og rauðlauk. Sneiðið lárperu. Saxið kóríander. Sneiðið radísur og jalapeno eftir smekk þunnt. Skerið límónu í báta.
Skiptið salati og kínóa á milli skála. Raðið restinni af grænmetinu fallega í skálina, kreistið smá límónusafa yfir, toppið með kóríander og berið fram með chipotle majó til hliðar.
Comments