top of page

Marokkóskar kjötbollur með sætkartöflu & bulgur salati

Updated: Mar 18, 2020

Hér erum við að tala um ljúffengar ostafylltar kjötbollur með Marokkósku ívafi, bornar fram með sætkartöflu & bulgur salati með heslihnetum og trönuberjum og hvítlaukssósu.


Þessi réttur er algjört ferðalag fyrir bragðlaukana og ég lofa að þetta salat á eftir að slá í gegn hjá ungum jafnt sem öldnum!


Fyrir 3-4:

Ungnautahakk, 550 g

Brauðraspur, 20 g

Hvítlauksrif, 3 stk

Egg, 1 stk

Rúsínur, 20 g

Nautakraftur, 1 tsk / Oscar

Fetaostur í kryddlegi, 50 g

Kóríander, 10 g

Sæt kartafla, 500 g

Bulgur, 1,5 dl

Harissa, 1,5 tsk

Spínat, 50 g

Heslihnetuflögur 35 g / eða ristaðar möndluflögur

Þurrkuð trönuber, 35 g

Majónes, 70 ml / Japanskt helst

Sýrður rjómi 10%, 70 ml

 
  1. Stillið ofn á 180 °C með blæstri

  2. Hrærið saman majónes og sýrðan rjóma. Pressið 1 hvítlauksrif og bætið helmingnum út í. Smakkið til með salti og meiri hvítlauk ef þarf. Geymið í kæli.

  3. Saxið rúsínur og kóríander og pressið 2 hvítlauksrif. Setjið í skál ásamt ungnautahakki, brauðraspi, eggi, nautakraft, fetaost og 1-1,5 tsk af flögusalti. Notið hendurnar til að blanda öllu vel saman. Það er gott taka smá klípu af blöndunni og steikja á pönnu til þess að smakka og bæta við meira salti ef þess þarf.

  4. Skerið sæta kartöflu í bita og veltið upp úr harissu, smá olíu og salti. Dreifið yfir ofnplötu með bökunarpappír og bakið í miðjum ofni um 30 mín eða þar til kartöflurnar eru búnar að taka fallegan lit og eru mjúkar í gegn.

  5. Eldið bulgur eftir leiðbeiningum á umbúðum.

  6. Mótið 20 jafn stórar bollur úr kjötblöndunni og brúnið bollurnar vel á öllum hliðum. Lækkið hitann á pönnunni og steikið bollurnar áfram þar til þær eru eldaðar í gegn.

  7. Saxið spínat og setjið í skál ásamt sætum kartöflum, bulgur, heslihnetuflögum og trönuberjum. Smakkið til með smá salti og blandið öllu vel saman.

  8. Berið fram marokkóskar kjötbollur með sætkartöflu og bulgur salati.

bottom of page