top of page

Lúxus lambaprime með rjómalagaðri hvítvínssósu sólþurrkuðum tómötum og parmesan

Updated: Feb 20

Þessi uppskrift sameinar allt sem þarf til að búa til ljúffenga máltíð þegar gera á vel við sig. Gómsætt marinerað lambaprime borið fram með silkimjúkri kartöflumús með bökuðum hvítlauk og parmesan. Hunangs timían gulrætur sem bæta við sætu og hvítvíns-rjómasósa með sólþurrkuðum tómötum og parmesan setur punktinn yfir i'ið! Þetta er réttur sem er bæði ljúffengur og fallegur á disknum.

Lambaprime, 500 g

1001 nótt kryddblanda (Pottagaldrar),  5 ml

Hvítlaukur, 4 rif

Sólþurrkaðir tómatar, 30 g

Gulrætur, 150 g          

Hunang, 5 ml

Timían ferskt, 2 stilkar

Hvítvín, 50 ml

Rjómi, 200 ml

Kartöflur, 350 g

Parmesan, 15 g

Kjötkraftur (Oscar), 7,5 ml


  1. Forhitið ofn í 180°C með blæstri

  2. Setjið lambaprime í skál með olíu, 1 pressuðu hvítlauksrifi, 1001 nótt kryddblöndu og salti eftir smekk. Látið marinerast í 30 mín eða yfir nótt.

  3. Pakkið 2 hvítlauksrifjum inn í álpappír með smá olíu og salti. Setjið inn í ofn í 30 mín.

  4. Skerið gulrætur í bitastærðir, veltið upp úr olíu, hunangi, timíanlaufum og salti. Bakið í 30 mín eða þar til gulræturnar hafa tekið fallegan lit og eru mjúkar í gegn.

  5. Setjið vatn í pott með ríflegu magni af salti og náið upp suðu. Skerið kartöflurnar í jafnstóra bita, bætið út í pottinn og sjóðið kartöflurnar þar til þær eru orðnar mjúkar í gegn. Hellið vatninu frá og leyfið kartöflunum að gufa í nokkrar mín.

  6. Hitið olíu á pönnu við miðlungshita og brúnið lambakjötið á öllum hliðum í um 5 mín. samtals. Varist að hafa of háan hita svo marineringin brenni ekki við.

  7. Færið kjötið í eldfast mót og bakið í um 12-14 mín. eða þar til kjarnhiti hefur náð 65°C. Gott er að notast við kjöthitamæli til þess að tryggja að réttum kjarnhita hafi verið náð. Leyfið kjötinu að hvíla í nokkrar mín. áður en skorið er í það. 

  8. Saxið sólþurrkaða tómata, pressið 1 hvítlauksrif og rífið 2/3 af parmesanostinum með fínu rifjárni. 

  9. Hellið olíunni úr pönnunni ef þarf. Lækkið hitann ögn, bætið sólþurrkuðum tómötum út á pönnuna ásamt pressaða hvítlauksrifinu og steikið í stutta stund þar til hvítlaukurinn byrjar að ilma. Bætið hvítvíni út á pönnuna og látið sjóða niður um helming.

  10. Bætið 150 ml af rjóma og kjötkrafti út á pönnuna ásamt 0,5 dl af vatni. Bætið parmesanosti saman við og látið malla rólega þar til sósan þykkist hæfilega. Smakkið til með salti og pipar.

  11. Stappið kartöflurnar með smjöri eftir þörfum og og rjóma eftir smekk ásamt bökuðum hvítlauk þar til silkimjúk kartöflumús hefur myndast. Smakkið til með salti og pipar.

  12. Berið fram með góðu salati




Comments


bottom of page