Vel kryddað nautakjöt, chipotle mayo, stökkar nachos flögur og heimalagað guacamole koma hér saman til að mynda hinn fullkomna föstudagsborgara.
Ef þú ert hrifin/n af guacamole þá er þetta borgarinn fyrir þig. Það er þess virði að vanda sig við guacamole'ið því það er það sem bindur allt saman.
Nautahakk 240 g
Lítil hamborgarabrauð, 2 stk
Þroskuð lárpera, 1 stk
Kóriander, 2 g
Hvítlauksrif, 1 stk
Santa Maria Taco krydd, 20 ml
Tómatur, 1 stk
Rauðlaukur lítill, 1 stk
Íssalat, 25 g
Ostur, 2 sneiðar
Nachos flögur, eftir smekk
Japanskt mayo, 60 ml / Eða venjulegt mayo
Chipotle mauk, 10 ml / Santa Maria, fæst í Hagkaup
Límóna, 1 stk
Smásaxið kóríander (líka stilkana) og stappið lárperu. Blandið vel saman og pressið 1/2 hvítlauksrif saman við. Smakkið til með smá límónusafa, salti og meiri hvítlauk ef þess þarf.
Hrærið mayo saman við chipotle mauk, smá salt og límónusafa.
Setjið nautahakk í skál og blandið taco kryddi vel saman við. Mótið tvö buff sem eru aðeins stærri en hamborgarabrauðin að stærð og grillið eða steikið borgarana í um 2.5-3 mín á hvorri hlið. Ef það á að steikja borgarana á pönnu er gott er að gera dæld í miðju kjötsins með þumlinum, en þá skreppur kjötið minna saman. Þegar litlar vökvaperlur eru farnar að myndast í köntum kjötsins er kominn tími til þess að snúa og setja ostinn á.
Sneiðið tómata og rauðlauk. Rífið salat eftir smekk.
Grillið eða hitið brauðin í stutta stund í ofni áður en þið smyrjið með sósu og raðið grænmeti, guacamole og nachos flögum á þá.
Berið fram með td sætkartöflu frönskum.
Comentarios