top of page

Lambakóróna í kryddjurtahjúp með grænbaunapurée, bökuðu smælki og graslaukssósu

Þessi er hrikalega góður!


Lambakórónan er hjúpuð í panko kryddjurtahjúp og borin fram með ljúffengu grænbaunapurée sem passar svo svakalega vel á móti lambinu, bökuðu smælki, gulrótum og einfaldri en æðislegri graslaukssósu.


Þegar þessi var borinn fram í fyrsta sinn óskuðu heimilsmeðlimir eftir því að þetta yrði í matinn um jólin og það er aldrei að vita nema ég láti það eftir þeim.

Lambakóróna, 600 g

Panko brauðraspur, 50 g

Rósmarín fersk, 3 msk saxað

Breiðblaða steinselja fersk, 10 g

Parmesan ostur, 5 g

Hvítlaukur, 3 lítil rif

Dijon sinnep, eftir þörfum

Kartöflusmælki, 350 g

Gulrætur, 120 g

Sýrður rjómi 10%, 40 ml

Majónes, 40 ml

Graslaukur ferskur, 4 g

Grænar baunir (frosnar), 160 g

Ólífuolía, 4-5 msk

Sítróna, 1 stk


  1. Saxið rósmarín og helminginn af breiðblaða steinselju. Rífið parmesan ost og pressið 1 hvítlauksrif. Hrærið panko, rósmarín, steinselju, parmesan og hvítlauk saman ásamt 0,5 tsk af salti.

  2. Saltið og piprið kjötið vel á öllum hliðum. Brúnið kjötið vel á öllum hliðum í um 1,5 mín á hverri hlið. Látið kjötið hvíla í nokkrar mín og smyrjið svo með dijon sinnepi.

  3. Skerið gulrætur í bita. Veltið kartöflusmælki og gulrótum upp úr olíu og salti. Dreifið yfir ofnplötu með bökunarpappír og bakið í neðstu grind í ofninum 30-35 mín. Hrærið í þegar tíminn er hálfnaður.

  4. Dreifið panko kryddjurtaraspinum yfir disk. Veltið kjötinu upp úr panko kryddjurtaraspinum og þrýstið honum vel á kjötið svo bitinn sé vel hulinn. Færið kjötið á ofngrind í miðjum ofninum og bakið við 200° með undir og yfir hita. Í um 30 mín eða þar til kjarnhiti bitans hefur náð 60°C.

  5. Setjið grænar baunir í sjóðandi vatn í stutta stund. Sigtið vatnið frá og setjið baunirnar í hentugt ílát ásamt 1 litlu hvítlauksrifi og 4 msk af góðri ólífuolíu. Maukið baunirnar með töfrasprota þar til mjúkt pureé hefur myndast. Smakkið til með salti, kreistu af sítrónusafa. Bætið við ögn af olíu og maukið áfram ef þið viljið hafa maukið mýkra.

  6. Saxið restina af steinselju og graslauk. Pressið hvítlauksrif. Hrærið saman steinselju, graslauk, hvítlauk eftir smekk, majónes og sýrðan rjóma. Smakkið til með salti, pipar og kreistu af sítrónusafa.




bottom of page