top of page

Lambafille með smjörbökuðum rósmarín kartöflum, piparostasósu og perusalati

Hér er mættur algjör hátíðarréttur sem smellpassar um páskana eða hvenær sem maður vill gera vel við sig og sína.

Lambafille’ið er extra “djúsí” með fituröndinni á og verður alveg ómótstæðilegt þegar maður gefur sér tíma til að skera rákir í puruna og steikja á pönnu. Með kjötinu berum við að sjálfsögðu fram uppáhalds sósu íslendinga, piparostasósuna góðu, sem er svo einföld í framkvæmd en gefur ekkert eftir í bragði.

Smjörbakaðar rósmarín kartöflur og perusalat með hunangs sítrónudressingu og valhnetum taka okkur svo yfir sigurlínuna, en ég gæti grínlaust borðað mig saddann af salatinu einu saman.

Fyrir 2:

Lambafille með fiturönd, 500 g

Piparostur, 50 g

Rjómi, 250 ml

Lambakraftur, 2 tsk / Oscar

Rósmarín ferskt, 6 g

Timian ferskt, 4 g

Kartöflur, 450 g

Hvítlaukur, 4 rif

Klettasalat, 50 g

Pera, 1 stk

Rauðlaukur, 1 stk lítill

Valhnetur, 40 g

Sítrónusafi, 1 msk

Hunang, 1 msk

Ólífuolía, 2 msk


  1. Takið kjötið úr kæli 1 klst áður en elda á matinn. Forhitið ofn í 180°C með blæstri

  2. Rífið piparost með rifjárni og setjið í lítinn pott ásamt rjóma og lambakrafti. Bræðið ostinn við vægan hita og látið sósuna malla rólega á meðan unnið er í öðru. Varist að láta sósuna sjóða. Smakkið til með salti og pipar.

  3. Skerið kartöflur í jafnar munnbitastærðir. Setjið 1 líter af vatni og 20 g af salti í pott og náið upp suðu. Bætið kartöflunum út í pottinn og sjóðið þar til kartöflurnar eru mjúkar í gegn, sirka 10-12 mín. Hellið kartöflunum í sigti og látið gufa í stutta stund.

  4. Týnið laufin af rósmarínstilkunum og saxið smátt (geymið stilkana). Pressið 2 hvítlauksrif. Bræðið 20 g af smjöri í pottinum sem kartöflurnar voru soðnar í og bætið rósmarín og pressuðum hvítlauk út í.

  5. Bætið kartöflunum út í pottinn og veltið þeim varlega upp úr bræddu smjörinu þar til þær eru vel huldar smjöri. Dreifið kartöflunum yfir ofnplötu með bökunarpappír og bakið í 20-25 mín eða þar til þær eru fallega gylltar. Hrærið í þegar tíminn er hálfnaður.

  6. Skerið rákir í fituna á kjötinu en varist að fara alla leið í gegn. Saltið og piprið kjötið rausnarlega. Kremjið 2 hvítlauksrif með höndunum.

  7. Hitið olíu í pönnu við meðalháan hita. Bætið kjötinu út á pönnuna ásamt 30 g af smjöri, rósmarínstilkunum, timian og 2 hvítlauksrifjum. Steikið kjötið á fituhliðinni í 4 mín eða þar til puran er orðin fallega gyllt og færið svo í eldfast mót.

  8. Dreypið rausnarlega af krydduðu smjörinu yfir kjötið og bakið svo í miðjum ofni í 10-12mín eða þar til kjarnhiti kjötsins hefur náð 60°C. Leyfið kjötinu að hvíla í 10 mín áður en skorið er í það, kjarnhiti kjötsins mun hækka um nokkrar gráður á meðan það hvílir.

  9. Pískið saman hunang, sítrónusafa og ólífuolíu. Sneiðið perur og lauk. Setjið perur lauk, klettasalat og valhnetur í skál ásamt hunangs- sítrónudressingu og blandið vel saman.

Unnið í samstarfi við Vínnes ehf

Comments


bottom of page