Steikt hrísgrjón eru fullkomin leið til að nýta restinni af hrísgrjónunum frá kvöldinu áður (við sjóðum jú öll alltaf of mikið, er það ekki?) eða með afgangs take away hrísgrjónum.
þessi réttur er búinn að rata beinustu leið á uppáhaldslistann því hann er algjör bragðsprengja þökk sé spicy Gochujang, hlynsýrópi og beikoni sem taka rækjurnar alveg upp á næsta stig og svo er hann líka svo fljótgerður að það hálfa væri nóg!
þó það sé best að gera þessa uppskrift með hrísgrjónum frá því daginn áður eða með afgangs take away hrísgrjónum þá má klárlega sjóða hrísgrjón sérstaklega fyrir þessa uppskrift og steikja svo. Munurinn verður sá að nýsoðnu hrísgrjónin verða blautari í sér en þau sem eru frá deginum áður og steikjast ekki jafn vel.
Fyrir 2-3:
Hvítkál, 100 g
Beikon, 100 g
Soðin hrísgrjón, 350 g
Risarækjur, 400 g
Gochujang, 30 g / Fæst í Fiska á Nýbýlavegi
Soyasósa, 1 msk + meira eftir þörfum
Ostrusósa, 1 msk / Fæst í Fiska á Nýbýlavegi
Hlynsýróp, 1 msk
Hrísgrjónaedik, 2 tsk
Sesamolía, 2 tsk
Handfylli basil lauf
Nokkrir stilkar kóríander
Steiktur skalottlaukur, eftir smekk / Fæst í Fiska á Nýbýlavegi
Sesamfræ, eftir smekk
Þýðið og þerrið rækjur með eldhúspappír.
Hrærið saman Gochujang, 1 msk soyasósu, ostrusósu, hlynsýróp, hrísgrjónaedik og sesamolíu.
Skerið beikon í bita og hvítkál gróflega. Saxið basil og kóríander.
Hitið olíu á pönnu og steikið beikonið þar til það er byrjað að taka svolítinn lit, bætið næst við hvítkáli og steikið þar til það er búið að mýkjast og er farið að taka svolítinn lit. Haldið áfram að steikja en hrærið reglulega í þar til beikonið er fulleldað.
Hækkið hitann ögn, bætið rækjum út á pönnuna og steikið í um 1 mín. Bætið því næst hrísgrjónum út á pönnuna ásamt Gochujang blöndunni og hrærið stanslaust í hrísgrjónunum þar til allt er vel hulið sósunni og mesti vökvinn er gufaður upp. Smakkið til með meiri soyasósu ef þarf ásamt salti ef þarf.
Takið af hitanum og hrærið söxuðu basil og kóríander saman við réttinn. Toppið með sesamfræjum og steiktum skalottlauk.
Comments