top of page

Kjúklinga tinga tacos

Hér er einn af þessum réttum sem skilar manni hámarks bragði með lágmarks fyrirhöfn!


Tætt kjúklingalæri í bragðmikilli chipotle sósu, borin fram í taco formi með lárperu, sýrðum rjóma, rauðlauk, kóríander, fetaosti og salati.


Mér þykir frábært að toppa þetta taco með grænu Cholula sósunni en svo er líka ljúffengt að nota ferskan ananas ef maður á hann til.

Fyrir 2:

Kjúklingalæri (Skinn og beinlaus), 500 g

San Marzano tómatar, 1 dós

Tómatpúrra, 15 ml

Chipotle mauk, 20 ml (eða eftir smekk) / Santa Maria

Púðursykur, 15 ml

Fiesta de Mexico, 10 ml / Pottagaldrar

Cumin, 5 ml

Kjúklingakraftur, 5 ml / Oscar

Hvítlauksduft, 2,5 ml

Tortilla vefjur, 6 litlar / Santa Maria

Sýrður rjómi, 60 ml

Lárpera, 1 stk

Rauðlaukur, 1 lítill

Fetakubbur, 40 g

Íssalat, 25 g

Kóríander, 4 g

 
  1. Setjið tómatana í skál og notið hendurnar til þess að kremja tómatana í litla bita.

  2. Hitið smá olíu í potti og brúnið kjúklingalærin á báðum hliðum í stutta stund. Bætið næst tómatpúrru og chipotle mauki eftir smekk (notið bara helminginn ef þið eruð viðkvæm fyrir sterkum mat) saman við og steikið í smástund.

  3. Lækkið hitann undir pottinum og bætið þurrkryddinu, púðursykrinum og tómötunum saman við. Lækkið hitann svo það rétt kraumi í pottinum og látið malla undir loki í 20-25 mín eða þar til kjúklingurinn er fulleldaður og losnar auðveldlega í sundur.

  4. Fjarlægið kjúklinginn úr pottinum og setjið á disk til hliðar. Hækkið hitann undir pottinum og sjóðið sósuna niður.

  5. Notið tvo gaffla til þess að tæta kjúklinginn í sundur og bætið honum svo aftur út í sósuna og haldið áfram að sjóða sósuna niður þar til hún er búin að þykkjast og umlykur kjúklinginn vel, en við viljum að sósan sé nokkuð þykk og renni ekki mikið til. Hrærið reglulega í svo ekkert brenni við og smakkið til með salti.

  6. Sneiðið lárperu, saxið kóríander, myljið fetaost, saxið rauðlauk og rífið salat. Hitið tortilla vefjur í stutta stund eftir leiðbeiningum á umbúðum.

  7. Raðið salati, kjúklinga, sýrðum rjóma, rauðlauk, fetaosti, lárperu og kóreander í vefjurnar og berið fram með uppáhalds sósunni ykkar.

Comments


bottom of page