top of page

Ítalskar kjötbollur og pasta í rjómalagaðri pestósósu með ferskum kryddjurtum og parmesan

Hér erum við að tala um pastarétt á næsta "leveli" svo maður sletti nú aðeins. Ekta ítalskar kjötbollur í rjóma og hvítvínslagaðri pestósósu með helling af ferskum kryddjurtum og parmesan. Það gerist ekki mikið betra!

Fyrir 2:

Nautahakk, 280 g

Brauðraspur, 2 msk

Egg, 1 stk

Fennel, 0,5 tsk

Kjötkraftur (duft), 1 tsk

Hvítlauksrif, 1 stk

Laukur, 80 g

Basil ferskt, 10 g

Steinselja fersk, 5 g

Parmesan ostur, 20 g

Trecce rigate pasta, 160 g / Tariello, fæst í Melabúðinni

Rjómi, 125 ml

Rautt pestó, 40 g / Ég notaði Filippo Berio

Rjómaostur, 30 g

Tómatpúrra, 2 msk

Provance krydd, 2 tsk

Kjúklingakraftur (duft), 1 tsk

Hvítvín, 3 msk

 
  1. Setjið vatn í pott ásamt smá salti og náið upp suðu.

  2. Saxið helminginn af basil smátt, 2 msk af lauk mjög smátt og pressið 1 hvítlauksrif. Setjið saxað basil, pressaðan hvítlauk, saxaðan lauk, nautahakk, egg, brauðrasp, fennel, kjötkraft og 1 tsk salt saman í skál og blandið vel saman.

  3. Myndið 12 jafn stórar bollur úr blöndunni. Saxið restina af lauknum.

  4. Brúnið bollurnar vel á öllum hliðum við frekar háan hita, lækkið hitann í miðlungshita og steikið bollurnar áfram þar til þær eru fulleldaðar. Setjið bollurnar á disk til hliðar og geymið.

  5. Bætið pasta út í pottinn og sjóðið í um 12 mín eða þar til pastað er al dente.

  6. Bætið söxuðum lauk á pönnuna og steikið við miðlungshita þar til hann er glær og mjúkur. Bætið hvítvíni út á pönnuna og látið sjóða niður í smástund. Bætið tómatpúrru út á pönnuna og steikið í 1-2 mín. Bætið pestó, provance kryddi, kjúklingakrafti, rjómaosti og rjóma út á pönnuna ásamt 2-3 msk af pastavatninu og látið malla í nokkrar mín þar til sósan er hæfilega þykk. Ef sósan verður of þykk má bæta við smá pastavatni.

  7. Rífið helminginn af parmesan ostinum saman við sósuna og setjið bollurnar aftur á pönnuna og veltið upp úr sósunni. Smakkið til með salti.

  8. Sigtið vatnið frá pastanu og setjið pastað svo út á pönnuna og veltið upp úr sósunni.

  9. Saxið basil og steinselju og dreifið yfir réttinn. Rífið restina af parmesan ostinum yfir.

  10. Berið fram með fersku salati.



Comments


bottom of page