top of page

Ómótstæðileg humar pizza með klettasalati og hvítlauksolíu

Haldið ykkur fast því þessi ómóstæðilega humarpizza sprengir alla skala!


Þessi samsetning af hvítlaukssteiktum humri, sítrónu, mozzarella og klettasalati er eintómur lúxus og algjör bragðveisla fyrir næsta pizzakvöld.

Ég mæli með því að nota rifinn mozzarella fyrir þessa uppskrift til þar sem hann er með lægra vökvahlutfall en ferskur mozzarella. Ástæðan fyrir því er að humarinn leysir út smá vökva þegar pizzan er bökuð en það kemur ekki að sök ef ostur með lágu vökvahlutfalli er notaður.

Þessi uppskrift að pizzadeigi er svakalega einföld og skilar manni æðislegum pizzabotni en hún krefst smá þolinmæði þar sem deigið þarf að taka sig í 2 daga áður en pizzurnar eru bakaðar. Þú munt samt ekki sjá eftir því! En það er auðvitað líka í fínu lagi að nota tilbúið pizzadeig ef tíminn er af skornum skammti.

Fyrir 2 pizzur:

Brauðhveiti, 420 g + smá meira til að vinna með

Sykur, 10 g

Borðsalt, 7 g

Þurrger, 7 g

Ólífuolía, 6 msk

Vatn, 280 g

San Marzano tómatar, 1 dós

Oregano þurrkað, 1 tsk

Hvítlauksrif, 3 stk

Hunang, 1 tsk

Humar (skelflettur og hreinsaður), 300 g

Rauðlaukur, ½ lítill

Steinselja, 5 g

Mozzarella ostur (rifinn), 180 g

Sítróna, 1 stk

Klettasalat, 20 g

Parmesanostur, eftir smekk


  1. Hitið vatnið í um 30-40 sek í örbylgjuofni þar til það er svipað heitt og notalegt bað.

  2. Setjið hveiti, sykur, salt og þurrger í matvinnsluvél og látið vélina ganga í stuttum hrinum í 4-5 skipti þar til allt hefur samlagast vel. Hellið vatni og 2 msk af ólífuolíu yfir hveitiblönduna og látið vélina ganga samfleytt í 15 sek þar til deigkúla hefur myndast. Látið vélina svo ganga í 15 sek til viðbótar.

  3. Stráið smá hveiti á borð og takið deigið úr matvinnsluvélinni. Hnoðið deigið í stutta stund og myndið úr því kúlu. Spreyið eða smyrjið stóra skál með olíu og færið deigið í skálina. Hyljið með matarfilmu og setjið í kæli í 2 sólarhringa.

  4. Takið deigið úr kæli 2 klst áður en baka á pizzurnar. Skiptið deiginu í tvennt og myndið úr því 2 kúlur. Færið kúlurnar í olíubornar skálar og hyljið með matarfilmu. Látið deigið jafna sig við stofuhita í amk 2 klst.

  5. Stillið ofn á 250 °C með yfir og undirhita

  6. Þerrið humarinn með eldhúspappír og steikið hann svo upp úr smá smjöri og pressuðu hvítlauksrifi, setjið humarinn á disk og geymið til hliðar.

  7. Setjið smá olíu í lítinn pott og stillið á miðlungshita. Pressið hvítlauksrif saman við og steikið í um 1 mín eða þar til hvítlaukurinn er farinn að ilma.

  8. Kremjið San Marzano tómatana með höndunum og bætið út í pottinn ásamt vökvanum úr dósinni, oregano og 1 tsk af hunangi. Náið upp suðu og lækkið svo hitann svo það malli hraustlega í pottinum. Látið malla í um 15 mín og smakkið svo til með salti.

  9. Setjið bökunarplötu inn í ofninn til þess að hitna á meðan botnarnir eru mótaðir.

  10. Notið hendurnar til þess að fletja botninn út í um 25 cm hring. Best er að vinna út frá miðju deigsins í átt að kantinum og reyna að hlífa um 2 cm af kantinum við sem mestu hnjaski, en þannig er gasinu sem hefur myndast yfir síðustu 2 daga ýtt út í kantinn sem verður til þess að hann lyftist mun betur.

  11. Smyrjið sósu á botninn og rífið mozzarellaost yfir. Dreifið humar yfir pizzuna ásamt rauðlauk og bakið svo í næstefstu grind í ofni í um 8-10 mín.

  12. Setjið 4 msk af ólífuolíu í litla skál og pressið 1 hvítlauksrif saman við. Hitið í nokkrum stuttum hrinum í örbylgjuofni þar til hvítlaukurinn er farinn að ilma.

  13. Saxið steinselju og rífið sítrónubörk (varist að taka hvíta undirlagið með því það er beiskt á bragðið). Dreifið steinselju og sítrónubörk yfir pizzuna þegar hún kemur úr ofninum ásamt smá salti, ríflegu magni af parmesan, góðri lúku af klettasalati og svolítilil hvítlauksolíu.

Commentaires


bottom of page