Ég er óður í Mexíkóskan mat og þegar ég er í útlöndum þá reyni ég alltaf að þefa uppi góða staði. Þegar ég var í Barcelona nýlega þá fann ég taco stað sem fer klárlega efst á listann, en hver einasti hlutur sem ég pantaði mér var betri en sá síðasti. Þar fékk ég líka Mexíkóska horchata í fyrsta sinn en horchata er léttur og svalandi sykraður drykkur sem er að finna á mörgum taco búllum og er til í nokkrum útfærslum.
Það er óhætt að segja að ég hafi verið hrifinn og eitt af því fyrsta sem ég gerði þegar ég kom heim var að prófa að útbúa þennan drykk sjálfur, en það er sáraeinfalt og krefst lítils annars en þolinmæði.
Horchata de arroz er vinsælasta útfærslan í Mexíkó og er venjulega til sölu á flestum góðum taco búllum, en sú útfærsla er gerð úr vatni, hrísgrjónum, kanil, möndlum og sykri og borin fram ísköld með klökum.
Bragðið af drykknum er rjómakennt, frískandi og minnir næstum því á að drekka fullkominn grjónagraut, sem hljómar mögulega svolítið skringilega, en er ótrúlega ljúffengt með sterkum Mexíkóskum mat.
Hvít hrísgrjón, 250 gr
Kanilstangir, 2 stk
Vatn, 1 ltr
Möndlumjólk, 250 ml
Sykur, 110 gr
Ísmolar
Kanill til skrauts
Setjið hrísgrjónin, kanilstangirnar og 1/2 líter af vatni í blandara og látið blandarann ganga í um 2 mín eða þar til grjónin og kanilstangirnar eru gróflega saxaðar. Setjið restina af vatninu út í og látið blandarann ganga í stutta stund.
Látið blönduna standa í amk 6 tíma eða yfir nótt til að láta vatnið draga í sig bragðið af grjónunum og kanilnum.
Sigtið blönduna nokkrum sinnum í gegnum fínt sigti og að lokum í gegnum ostaklút eða hreina tusku til þess að losna við allt gruggið.
Hrærið möndlumjólk og sykur saman við blönduna. Smakkið til með meiri sykur ef þörf er á og geymið svo í kæli.
Berið fram með klökum og stráið örlitlum kanil yfir til skrauts.
Comments