top of page

Himnesk pizza með Burrata og hráskinku

  • Writer: Snorri
    Snorri
  • Sep 8, 2021
  • 2 min read

Það hefur eflaust ekki farið framhjá neinum matgæðingum að nú er fáanlegur íslenskur Burrata ostur. Því fannst mér alveg kjörið að setja í eins og eina ljúffenga föstudagspizzu þar sem hráefnin fá að njóta sín.


Að gera sína eigin pizzasósu frá grunni þykir mér alltaf skila sér í bragði en að sjálfsögðu má líka nota sína uppáhalds tilbúnu sósu.

San Marzano tómatar, 1 dós

Hvítlauksrif, 2 stk

Ólífuolía, 1 msk

Flögusalt, 0,5 tsk

Hunang 1 tsk

Timiangreinar, 5 stk

Pizzadeig, 1 kúla

Burrata ostur, 1 kúla

Góð Parma skinka, 6 sneiðar

Basilíka fersk, handfylli af laufum

Parmesanostur eftir smekk

Rauðar chiliflögur eftir smekk


  1. Maukið tómatana í nokkrum stuttum slögum með töfrasprota.

  2. Hitið 1 msk af ólífuolíu við vægan hita í litlum potti og pressið hvítlauk út í. Steikið hvítlaukinn við vægan hita þar til hann byrjar að ilma. Bætið tómötum, flögusalti, hunangi og timíangreinum út í pottinn og látið malla í 15 mín eða þar til sósan fer að þykkjast aðeins. Smakkið til með salti og látið kólna. Fjarlægið timiangreinar áður en sósan er notuð.

  3. Hitið ofn í hæsta hita sem ofninn ræður við með yfir og undir hita.

  4. Setjið pizzastein í næst neðstu grind í ofni og látið hitna í 30 mín með ofninum. Ef pizzasteinn er ekki til er gott að hita ofnplötuna í staðin.

  5. Notið hendurnar til þess að fletja botninn út í um 12-14” hring. Best er að vinna út frá miðju deigsins í átt að kantinum og reyna að hlífa um 1,5-2 cm af kantinum við sem mestu hnjaski, en þannig er gasinu sem hefur myndast í deginu ýtt út í kantinn sem verður til þess að hann lyftist mun betur.

  6. Komið pizzabotninum fyrir á bökunarpappír. Dreifið sósu yfir botninn og rífið Burrata ostinn yfir. Stráið chiliflögum eftir smekk yfir pizzuna.

  7. Dragið pizzuna á bökunarpappírnum á pizzasteininn/bökunarplötuna og bakið þar til pizzan er fallega gyllt og osturinn bráðnaður. Milli 6-10 mín (fer eftir hitanum á ofninum og hvort pizzasteinn sé notaður).

  8. Dreifið parma skinku og basilíku yfir pizzuna þegar hún kemur úr ofninum og rífið parmesan ost yfir.


Þessi færsla er unnin í samstarfi við Vínnes ehf

Comments


bottom of page