top of page

Birria pizza

  • Writer: Snorri
    Snorri
  • Apr 14
  • 2 min read

Updated: Apr 15

Birria pizza er svona réttur sem fer beint í helgarflokkinn. Hægeldað kjöt í bragðmikilli og spæsí sósu, fullt af osti, stökkur botn og brjálæðislega gott.

Ég nota svo afgangs kjötið alltaf í tacos eða burrito daginn eftir – mjúkar tortillur, smá kóríander, lárpera og dýft í soðið. Svo gott!


Ekki fljótlegasta máltíð í heimi, en algjörlega þess virði.

Birria kjöt:

500 g Nauta chuck (Hægt að fá í flestum kjötbúðum)

2 Guajillo chiles (Fást oft í Hagkaup eða Fiska)

1 Ancho chile (Fæst oft í Hagkaup eða Fiska)

1 msk chipotlemauk

2 hvítlauksrif

½ laukur

1 stór tómatur

1,5 tsk cumin

1 tsk oregano

1 tsk reykt paprikuduft

klípa af negul (má sleppa) 

½ kanilstöng

1 lárviðarlauf

1–1,5 msk eplaedik

salt og pipar

ca. 400 ml nautasoð


Fyrir pizzuna:

300 g pizzakúla

120 g mozzarella

1 grænt jalapeno

6 g kóríander

3 msk saxaður hvítur salatlaukur (eða rauðlaukur)


  1. Ristaðu chilipiprana í þurri pönnu í 30 sek–1 mín til að vekja upp bragðið. Settu þá svo í skál með sjóðandi vatni og láttu mýkjast í 10 mín.

  2. Settu chilipiprana, chipotlemauk, hvítlauk, tómat, lauk, edik og öll kryddin (fyrir utan kanilstöngina og lárviðarlaufið) með smá af vatninu sem var notað til að mýkja chilipiprana í blandara og maukaðu allt þar til silkimjúkt.

  3. Skerðu kjötið í sirka 3 cm bita og brúnaðu í potti. Kryddaðu með salti og pipar. Helltu sósunni yfir og bættu við nautasoði svo að kjötið fljóti rétt undir yfirborðinu.

  4. Bættu lárviðarlaufi og kanilstöng við og láttu malla rólega undir loki í amk 3-4 klst (eða í ofni við 150°C). Fylgist með vatnsmagninu og passið að hitinn sé ekki það hár að vökvinn sé allur að gufa upp.

  5. þegar kjötið er orðið svo meyrt að þú getur rifið það í sundur með gaffli – þá er það klárt. Rífðu kjötið í sundur, smakkaðu til með salti og fjarlægðu lárviðarlaufið og kanilstöngina. Láttu svo malla í sósunni í svolitla stund lengur.

  6. Takið pizzabotninn úr kæli amk 1 klst áður en elda á pizzuna.

  7. Setjið pizzastein í neðstu grind í ofni og stillið á hæsta hita (300°C helst). Látið steininn hitna á meðan unnið er í öðru.

  8. Dreifið svolitlu hveiti yfir borðið og notið hendurnar til þess að fletja pizzabotninn út. Leggið svo á bökunarpappír. Best er að vinna út frá miðju deigsins í átt að kantinum og reyna að hlífa um 1,5 cm af kantinum við sem mestu hnjaski, en þannig er gasinu ýtt út í kantinn sem verður til þess að hann lyftist mun betur.

  9. Smyrðu botninn með svolitlu af birria sósunni og dreifðu svolitlum osti yfir. Dreifðu kjöti yfir ostin, svo örlítið meira af osti og kjöti. Sneiðið jalapeno þunnt og stráið yfir pizzuna.

  10. Færið pizzuna á pizzastein og bakið þar til hún er gyllt og ljúffeng (Fjarlægið bökunarpappírinn þegar tíminn er sirka hálfnaður). Toppið með söxuðum salatlauk og kóríander um leið og pizzan kemur úr ofninum.

  11. Berið fram með svolitlu af soðinu til hliðar til að dýfa pizzunni í.



Comments


bottom of page