top of page

Hvernig á að steikja fullkominn hamborgara?

  • Writer: Snorri
    Snorri
  • Mar 14
  • 2 min read

Það er  fátt sem ég elska meira en góður hamborgari! Til að steikja fullkominn hamborgara þarf að huga að kjötinu, hitanum og eldunartímanum. Hér eru helstu hlutirnir sem þarf að hafa í huga fyrir hinn fullkomna borgara.


1. Veljið rétta kjötið 

  • Notið nautahakk með 20% fitu (t.d. 80/20 hlutfall), þar sem fitan gefur safaríkan og bragðgóðan borgara.

  • Ekki vinna kjötið of mikið. Mótið buffin varlega svo borgarinn verði ekki of þéttur

    .

2. Mótið buffið

  • Gerið buffin um 1,5 cm þykk og aðeins stærri en brauðið (þau dragast saman við steikingu og það er fátt verra en borgari sem fyllir ekki út í brauðið).

  • Gerið litla dæld í miðjuna með þumalfingrinum – þetta kemur í veg fyrir að buffið bungist upp við eldun.

  • Kryddið kjötið með salti og pipar rétt áður en borgarinn er steiktur.


3. Steiking

  • Steikið við háan hita og notið stálpönnu.

  • Byrjið á að rista brauðin með smjöri á heitri pönnunni áður en borgarinn er steiktur. Þetta bæði mýkir brauðin og gefur þeim mun betra bragð.

  • Penslið pönnuna með svolítið af hitaþolinni olíu eins og t.d. avocado olíu.

  • Leggið buffið á heita pönnuna og þrýstið því þétt niður svo það snerti pönnuna sem best. Ekki þrýsta aftur á buffið því um leið og það byrjar að steikjast mun það sleppa út safanum þegar þrýst er á það.

  • Steikið í um 2,5 mín á hvorri hlið. Ágætis þumalputtaregla er að þegar kjötsafi er byrjaður að myndast ofan á buffinu er kominn tími til að snúa buffinu. Þetta er merki um að buffið sé byrjað að eldast í miðjunni.

  • Tilbúinn borgari er fallega brúnaður, með bleika miðju og safaríkur.

  • Setjið 2 sneiðar af Amerískum osti á hvern borgara þegar um 1 mín er eftir af steikingartímanum. Ef ég er að steikja beikonborgara set ég eina sneið á kjötið, því næst beikon og að lokum aðra ostsneið yfir beikonið. Setjið lok á pönnuna til að bræða ostinn.


Svo er bara að raða saman með sínum uppáhalds sósum og áleggjum!


Comments


bottom of page