Hér er léttur og ferskur forréttur sem gefur ekkert eftir í bragði þótt hann sé þræleinfaldur í eldun. Pönnusteikt hörpuskel með silkimjúku graskersmauki mætir frískandi grænum eplum og kínóa og myndar æðislega bragðharmoníu. Ég mæli með þessum af fullum krafti!
Það má svo auðveldlega skala þessa uppskrift upp fyrir 4, 6 eða 8.
Forréttur fyrir 2:
Hörpuskel frá Sælkerafisk, 1 pakki
Grasker, 350 g (hýðið ekki talið með)
Hvítlaukur, 2 rif
Grænt epli, ¼ stk
Kínóa, 0,5 dl
Steinselja, 5 g
Smjör, 20 g
Vefjið hvítlauknum þétt inn í álpappír með smá olíu og salti.
Skerið grasker í bita og veltið upp úr smá olíu og salti. Dreifið graskerinu yfir ofnplötu með bökunarpappír og komið innpakkaða hvítlauknum líka fyrir á plötunni. Bakið í miðjum ofni í um 30 mín eða þar til graskerið er farið að taka lit og er mjúkt í gegn. Hrærið í þegar tíminn er hálfnaður.
Setjið 1 dl af vatni ásamt svolitlu salti í lítinn pott og náið upp suðu. Bætið kínóa út í og lækkið hitann svo það rétt kraumi í vatninu. Látið malla undir loki í 15 mín og takið þá af hitanum. Látið standa undir loki í 5 mín.
Færið bakaða graskerið og hvítlaukinn í hentugt ílát ásamt 20 g af smjöri. Maukið með töfrasprota þar til silkimjúkt purée hefur myndast. (Ef maukið er of þurrt má bæta við ögn meira af smjöri og mauka áfram). Smakkið til með salti og geymið undir loki þar til maturinn er borinn fram.
Skerið ¼ grænt epli í litla bita og saxið steinselju. Hrærið eplabitum og steinselju saman við soðið kínóa. Þetta skref er best að gera rétt áður en maturinn er borinn fram svo eplið haldist sem ferskast.
Þerrið hörpuskelina vel með eldhúspappír. Ekki salta hörpuskelina fyrr en rétt áður en hún er sett á pönnuna.
Setjið viðloðunarfría pönnu á háan hita. Bætið 2 msk af olíu út á pönnuna þegar pannan er orðin sjóðheit.
Bætið hörpuskel út á pönnuna en hafið gott bil á milli bitanna. Steikið í 1,5-2 mín og snúið þá við og steikið í 1-1,5 mín til viðbótar. Bætið smjörklípu út á pönnuna þegar hörpuskelinni er snúið og dreipið smjörinu yfir bitana á meðan hörpuskelin eldast.
Skiptið graskers purée á milli diska og toppið með kínóa og eplum. Raðið hörpuskelinni fallega yfir, skreytið með steinselju og berið fram strax.
Comments