top of page

Gulrótarköku kleinuhringir með Philadelphia rjómaostakremi

Hér koma sama tveir af mínum uppáhalds hlutum. Gulrótarkökur og kleinuhringir!


Þetta eru mjúkir og ljúffengir bakaðir kleinuhringir með pekanhnetum, vermandi kryddum og ómótstæðilegu Philadelphia rjómaostakremi. Tekur enga stund að setja saman og smellpassar með kaffinu!

Gerir um 20 kleinuhringi:

Hveiti, 160 g

Matarsódi, ¾ tsk

Lyftiduft, ½ tsk

Borðsalt, ½ tsk

Kanill, 1 tsk

Múskat, ¼ tsk

Engiferduft, ¾ tsk

Negull, ¼ tsk

Sykur, 100 g

Púðursykur, 100 g

Repjuolía, 180 ml

Egg, 2 stk

Vanillustöng, 1 stk

Nýmjólk, 2 msk

Rifnar gulrætur, 170 g

Pekanhnetur, 70 g + meira í skraut

Philadelphia rjómaostur, 150 g

Flórsykur, 2 dl

Rjómi, 3-5 msk


  1. Forhitið ofn í 175°C með yfir og undirhita

  2. Pískið saman hveiti, matarsóda, lyftiduft, salt, kryddin, sykur og púðursykur í stórri skál.

  3. Bætið olíunni út í skálina og hrærið saman með handþeytara. Bætið 1 eggi í einu út í og blandið vel saman. Skerið vanillustöngina í tvennt og skafið fræin innan úr. Bætið fræjunum út í skálina ásamt mjólkinni og hrærið vel saman.

  4. Saxið pekanhnetur og bætið út í skálina ásamt gulrótum og blandið vel saman með sleikju.

  5. Spreyið kleinuhringjaform (fást t.d. í Hagkaup eða Allt í köku) með matarolíu og fyllið hvert mót hálfa leið upp.

  6. Bakið í miðjum ofni í 15 mín. Látið kólna smá áður en kleinuhringirnir eru fjarlægðir úr forminu.

  7. Hrærið saman rjómaost og flórsykur með handþeytara. Bætið við rjóma þar til áferðin er orðin hentug til að dýfa kleinuhringjunum í eða smyrja kreminu á þá.

  8. Saxið pekahnhnetur eða hvað sem ykkur listir og skreytið kleinuhringina.

Þessi færsla er unnin í samstarfi með Innnes ehf.



Comentários


bottom of page