top of page

Grísa carnitas tacos með fetaosti, lárperu og kryddsósu

Ómótstæðilegar Mexíkóskar tacos toppaðar með hægelduðu grísakjöti sem er tætt niður að hluta og síðan steikt á pönnu.


Að steikja kjötið eftir að hægelda og rífa það að parti niður skilar manni bæði minni bitum sem verða stökkir og ljúffengir og stærri bitum sem verða fallega brúnaðir en mjúkir og safaríkir að innan sem gerir það að borða þessar tacos sérlega skemmtilegt.


Frá upphafi til enda tekur þessi uppskrift sirka 3 klukkutíma en hún er þó vel þess virði og sáraeinföld í framkvæmd.

Fyrir 4:

Grísahnakki, 700 g

Beinlaus grísasíða (Purusteik), 300 g

Kjúklingasoð, 250 ml

Tortillur, 12 stk

Japanskt mayo, 150 ml

Sýrður rjómi 18%, 70 ml

Sambal oelek, 20 ml

Rauðkál, 200 g

Lárpera, 2 stk

Radísur, eftir smekk

Hreinn fetaostur, eftir smekk

Hot sauce, eftir smekk / Ég mæli með Cholula sem fæst í Melabúðinni

 
  1. Skerið kjötið í um 2-3 cm bita og setjið í pott með kjúklingasoðinu, um 1/2 msk af flögusalti og smá svörtum pipar. Náið upp suðu og lækkið svo hitann svo það rétt kraumi í pottinum. Látið malla undir loki í 2.5 klst en hrærið einstaka sinnum í pottinum.

  2. Hrærið saman sýrðann rjóma, japanskt mayo og sambal oelek. Smakkið til með salti.

  3. Sneiðið rauðkál mjög þunnt, helst með mandolíni og hrærið 2 tsk af sósunni saman við. Geymið.

  4. Eftir 2.5 klst ætti kjötið að vera orðið mjög mjúkt en þá er kominn tími til þess að nota 2 gaffla til þess að rífa kjötið aðeins í sundur, en samt ekki alveg í öreyndir. Við viljum hafa gott jafnvægi af rifnu kjöti og stærri bitum.

  5. Færið næst af kjötinu ásamt helmingnum af vökvanum yfir á non-stick pönnu og steikið kjötið við frekar háan hita þar til það er farið að brúnast vel en bætið við olíu ef þess þarf. Smakkið til með salti og færið kjötið svo á disk með eldhúspappír til þerris. Endurtakið með restina af kjötinu.

  6. Hitið tortillur í stutta stund á hreinni heitri pönnu eða vefjið í álpappír og hitið við 150 °C í ofni þar til heitar og mjúkar.

  7. Sneiðið lárperu og radísur eftir smekk. Myljið fetaost.

  8. Smyrjið kryddsósu í tortillurnar og raðið saman rauðkáli, kjöti, fetaosti, radísum, lárperu og hot sauce eftir smekk.


bottom of page