top of page

Brakandi ferskt kjúklingasalat með avocado, mangó og hunangs-lime dressingu

Ef þú ert ekki mikið fyrir salöt þá er þetta salatið sem mun fá þig til að skipta um skoðun.


Bragðmikill kjúklingur, brakandi ferskt salat, mangó og lárpera ásamt hunangs-lime dressingu gera þetta að algjörri veislu sem maður fær ekki nóg af.

Mér þykir vera algjört lykilatriði að nota salat sem er stökkt og safaríkt eins og td romaine eða íssalat því þessar tegundir halda sér stökkum og ferskum með dressingunni.

Fyrir 2:

Kjúklingalæri (skinn & beinlaus), 400 g

Mið-austurlenskt kjúklingakrydd, 1,5 msk / Kryddhúsið

Límónusafi, 2 msk

Ólífuolía, 4 msk

Hunang, 1 msk

Smátt saxaður kóríander, 2 msk

Hvítlauksrif, 1 lítið

Avocado, 1 stk

Mangó, 1 stk

Sólskinstómatar, 120 g

Rauðlaukur, ½ lítill

Radísur, 4 stk

Ristuð graskersfræ, 5 msk

Ferskt salat, 100 g / t.d. romaine og/eða íssalat

Spírur eftir smekk / t.d. radísuspírur

 
  1. Setjið kjúklingalæri, mið-austurlenskt kjúklingakrydd og 1,5 tsk af flögusalti í skál með skvettu af olíu og blandið vel saman. Látið marinerast í 30 mín.

  2. Stillið ofn á 200°C með blæstri.

  3. Dreifið kjúklingalærunum yfir ofnplötu með bökunarpappír og bakið í miðjum ofni í 25 mín eða þar til kjúklingurinn er fulleldaður og búinn að brúnast fallega. Eða grillið á 200°C heitu grilli í um 5-6 mín á hvorri hlið.

  4. Setjið límónusafa, ólífuolíu, 1 lítið pressað hvítlauksrif, hunang, saxaðan kóríander og smá salt í litla krukku með loki eða tóman hreinan kryddstauk með loki og hristið duglega þangað til allt hefur blandast saman og falleg dressing hefur myndast.

  5. Skerið mangó og tómata í bita, sneiðið avocado, rauðlauk og radísur. Skerið kjúklingalærin í bita.

  6. Rífið/skerið salat eftir smekk og veltið upp úr helmingnum af dressingunni. Skiptið salatinu á milli skála og toppið með restinni af hráefnunum og dreypið restinni af dressingunni yfir eftir smekk

Comments


bottom of page