Vinur minn frá Belgíu kynnti mig fyrir Biscoff kremi og síðan þá hefur hann gefið mér 1-2 krukkur í hvert sinn sem hann fer heim til Belgíu.
Kremið er gert úr svokölluðum Biscoff kökum frá Lotus og eru vinsælar sem meðlæti með kaffi. Kökurnar eru ótrúlega bragðgóðar með blöndu af kanil, múskat og engifer og smellpassa einmitt með rjúkandi kaffibolla.
Mig langaði að prófa að nýta kremið við bakstur og ákvað að gera þessa Biscoff kleinuhringi sem eru í einu orði sagt sturlaðir! Þegar þetta er skrifað fæst Biscoff krem í Krónunni svo nú er ekki eftir neinu að bíða og tilefni til að byrgja sig upp!
Fyrir þessa uppskrift þarf að nota kleinuhringjaform fyrir bakstur en það fæst stundum í Hagkaup en annars fæst það alltaf í Allt í köku.
Kleinuhringir (9 stk):
Hveiti, 120 g
Sykur, 70 g
Lyftiduft, 1 tsk
Borðsalt, 0,5 tsk
Smjör, 30 g
Egg, 1 stk
Nýmjólk, 1 dl
Vanillustöng, 1 stk
Biscoff krem, 40 g
Lotus Biscoff kökur, 1-2 stk
Glaze:
Biscoff krem, 60 g
Flórsykur, 100 g
Nýmjólk, 2-3 msk
Forhitið ofn í 175°C yfir og undirhita.
Skerið vanillustöngina í tvennt og skafið fræin innan úr.
Pískið saman hveiti, sykur, lyftiduft og borðsal.
Bræðið smjörið við vægan hita og pískið svo mjólkina saman við til að kæla smjörblönduna. Pískið eggin saman við smjörið ásamt vanillufræjunum. Pískið því næst þurrefnin saman við eggja/smjörblönduna.
Fyllið sprautupoka með deiginu eða notist við smellupoka og klippið eitt hornið frá.
Spreyjið kleinuhringjamót með matarolíu og fyllið formin hálfa leið upp með deiginu.
Setjið 3-4 litlar klípur af Biscoff kremi í hvern kleinuhring og hyljið með smá auka deigi.
Bakið í miðjum ofni í 9-10 mín. Leyfið að kólna í nokkrar mín áður en kleinuhringirnir eru fjarlægðir úr mótinu.
Bræðið Biscoff krem við vægan hita í litlum potti og pískið flórsykur og mjólk saman við eftir þörfum þar til glaze'ið er nógu þykkt til að dífa kleinuhringjunum í.
Myljið Biscoff kökur og stráið yfir kleinuhringina á meðan glaze'ið er ennþá blautt.
Comments