Hvað er betra en stökkur djúpsteiktur kjúklingaborgari? Jú, stökkur djúpsteiktur kjúklingaborgari með beikoni og heimagerðu hrásalati!
Ég er afskaplega veikur fyrir djúpsteiktum kjúkling og og hefur lengi langað til þess að fá mér djúpsteikingarpott til þess að láta undan kjúklingalönguninni. Vissulega þarf ekki djúpsteikingarpott til þess að elda ljúffengan kjúkling heima fyrir en það er töluvert einfaldara að stjórna hitastiginu með djúpsteikingarpotti en að nota venjulegan pott og hitamæli.
Farið bara varlega þegar þið steikið kjúklinginn því það er sérlega óskemmtilegt að brenna sig á heitri olíu.
Hrásalat:
Rauðkál, 50 g
Hvítkál, 50 g
Gulrót lítil, 1 stk
Majónes, 7,5 ml
Sýrður rjómi, 7,5 ml
Dijon sinnep, 2 ml
Lime, 0,5 stk
Smá salt
Hrærið majónes, sýrðan rjóma og dijon sinnep saman. Sneiðið rauðkál og hvítkál mjög þunnt, helst með mandolíni. Skrælið og rífið gulrót með rifjárni. Setjið í skál með mayo og sýrðu rjómablöndunni. Rífið börkinn af hálfu lime (passið að taka ekki hvíta undirlagið með) saman við og kreistið góða kreistu af límónusafa saman við. Hrærið öllu vel saman og smakkið til með smá salti. Geymið í kæli.
Hunangssinneps majó:
Majónes, 100 ml
Sýrður rjómi, 1 msk
Hunang, 1 msk
Dijon sinnep, 1 tsk
Kreista af lime
Hrærið öllu vel saman í skál og geymið í kæli
Hveitiblanda:
Hveiti, 200 g
Maíssterkja, 50 g
Laukduft, 1 msk
Hvítlauksduft, 1 msk
Paprika, 1 msk
Hvítur pipar, 1 tsk
Sellerísalt, 1 tsk
Cayenne pipar, 1 tsk
Borðsalt, 1 msk
Hrærið öllu vel saman í skál.
Blautblanda:
Ab mjólk, 250 ml
Egg, 1 stk
Sriracha sósa, 15 ml
Hrærið öllu vel saman í skál.
Restin:
Kjúklingalæri (skinn & beinlaus), 4 stk
Hamborgarabrauð, 4 stk
Beikon, 8 sneiðar
Súrar gúrkur, skornar eftir smekk
Repjuolía, 2.5 lítrar
Takið kjúklinginn úr ísskápnum og látið standa í amk 1 klst áður en byrjað er að elda.
Raðið beikon á ofnplötu með bökunarpappír og steikið í 12-14 mín við 180 °C á blæstri en fylgist með því eftir 10 mín svo það brenni ekki. Leggið beikonið á disk með eldhúspappír til þerris.
Stillið djúpsteikingarpott á 180 °C eða setjið olíuna í 5-6 lítra pott og festið hitamæli á hann. Hitið olíuna upp í 180 °C en fylgist vel með svo olían hitni ekki of mikið.
Á meðan olían hitnar. Dýfið kjúklingalærunum í hveitiblönduna og þekið þau vel. Leggið á disk.
Hellið um 0,5 dl af blautblöndunni út í hveitiblönduna. Notið puttana til þess að klessa blautblönduna saman við hveitið svo hellingur af litlum hveitiklumpum myndist.
Dýfið kjúklingnum í blautblönduna og látið renna aðeins af honum. Dýfið kjúklingnum næst í hveitiblönduna svo kjúklingurinn þekjist hveitiklumpunum. Leggið á disk og endurtakið með restina af kjúklingnum.
Steikið tvö kjúklingalæri í einu í um 7-8 mín en snúið þeim nokkrum sinnum yfir eldunartímann. Athugið að hitinn á olíunni getur fallið töluvert þegar byrjað er að steikja lærin og því mikilvægt að fylgjast með hitastiginu.
Fjarlægið kjúklinginn varlega úr olíunni með góðu áhaldi og leggið á disk með eldhúspappír. Ef kjöthitamælir er til á heimilinu er kjörið að stinga í þykkasta part kjúklingsins og fullvissa sig um að kjarnhiti hans sé búinn að ná 75°.
Ristið hamborgarabrauðin í stutta stund í ofninum eða á heitri pönnu og raðið svo sósu, gúrkum, kjúkling, beikoni og hrásalati í brauðin.
Olíuna má svo nota aftur til djúpsteikingar eftir að búið er að sía óhreinindin frá eftir að hún er búin að kólna.
Comments