top of page

Rósmarín kjúklingabringur með graskers purée og grænkálssalati

Það ætlaði allt um koll að keyra hérna í Laugardalnum þegar þessi réttur var borinn fram í fyrsta sinn og þess var beðið með eftirvæntingu að þetta yrði aftur í matinn.


Gullfallegar rósmarín kjúklingabringur bornar fram með silkimjúku graskers purée og grænkálssalati með ristuðum möndlum og parmesan.


Grænkál og grasker minna mig alltaf á haustið og því smellpassar þessi núna með haustinu, svona þegar veturinn er hinumeginn við hornið.Fyrir 2:

Kjúklingabringur, 2 stk

Rósmarín, 1 lítil grein

Grasker (Butternut squash), 500 g (Hýðið ekki talið með)

Hvítlaukur, 2 rif

Múskat, 1,5 ml

Smjör, 20 g

Sýrður rjómi, 1 msk

Möndluflögur, 20 g

Grænkál, 60 g (stilkurinn ekki talinn með)

Parmesanostur, 15 g

Sítróna, 1 stk

Ólífuolía, 0,5 msk

 
  1. Stillið ofn á 180 °C með blæstri.

  2. Ristið möndluflögur á heitri pönnu þar til þær eru byrjaðar að taka fallegan lit og ilma.

  3. Saxið grænkál nokkuð smátt og setjið í skál með ristuðum möndluflögum. Rífið sítrónubörk saman við með fínu rifjárni (varist að taka hvíta undirlagið með því það er beiskt á bragðið) ásamt parmesanosti. Hrærið 0,5 msk af ólífuolíu saman við ásamt kreistu af sítrónusafa og blandið öllu vel saman. Smakkið til með salti ef þarf.

  4. Vefjið hvítlauknum þétt inn í álpappír með smá olíu og salti.

  5. Skerið grasker í bita og veltið upp úr smá olíu, salti og múskati. Dreifið graskerinu yfir ofnplötu með bökunarpappír og komið innpakkaða hvítlauknum líka fyrir á plötunni. Bakið í neðstu grind í ofni í um 30 mín eða þar til graskerið er farið að taka lit og er mjúkt í gegn. Hrærið í þegar tíminn er hálfnaður.

  6. Færið bakaða graskerið og hvítlaukinn í pott ásamt smjöri og sýrðum rjóma. Maukið með töfrasprota þar til graskerið er orðið silkimjúkt. (Ef graskerið er of þurrt má bæta við ögn meira af sýrðum rjóma og mauka áfram). Smakkið til með salti og geymið undir loki þar til maturinn er borinn fram.

  7. Tínið rósmarín laufin af greininni og saxið þau smátt. Smyrjið kjúklingabringurnar með olíu og kryddið með söxuðu rósmarín og salti.

  8. Hitið olíu á pönnu við meðalháan hita og steikið bringurnar í 2.5 mín á hvorri hlið. Færið bringurnar svo í eldfast mót og bakið í um 18-20 mín (fer eftir stærð) eða þar til kjúklingurinn er hvítur í gegn og fulleldaður.


Comments


bottom of page