þessi er svakalega góð! Tómatarnir verða sætir og góðir þegar þeir eru bakaðir svona og smellpassa með balsamikgljáanum og rifna andalærinu.
Andalærin fást í nokkrum útgáfum í flestum verslunum og eru oftast 4-5 stk í pakkningu/dós. Það þarf bara eitt læri í þessa uppskrift en hin lærin má nota t.d. Í andasalat.
Súrdeigs pizzadeig, 300 g / T.d. Frá Brikk Bakarí
Confit andalæri, 1 læri / 4-5 læri í dós, kjörið í aðra máltið.
Smátómatar, 100 g / T.d. Angelle eða Piccolo
Ítalskt pastakrydd, 5 ml / Pottagaldrar
Rauðlaukur, 1
Klettasalat, 25 g
Balsamikgljái eftir smekk
Pizzasósa, 1 dl / T.d. Mutti
Pizzaostur, 100 g
Takið pizzadeigið úr kæli amk 1 klst fyrir eldun.
Stillið ofn á 180°C á blæstri.
Setjið tómata í eldfast mót og veltið upp úr ólífuolíu og salti. Bakið í miðjum ofni í 20 mín.
Hreinsið fituna af andalærinu og rífið kjötið niður. Við notum ekki skinnið.
Stillið ofninn á hæsta hita (á pizza stillingu ef það er í boði).
Sneiðið rauðlauk í þunnar sneiðar eftir smekk.
Setjið bökunarplötu inn í ofn svo hún hitni vel á meðan unnið er í botninum. Hafið bökunarpappír kláran til að vinna deigið á.
Setjið smá hveiti á hendurnar og notið hendurnar til þess að fletja botninn út í um 28 cm hring. Best er að vinna út frá miðju deigsins í átt að kantinum og reyna að hlífa um 2 cm af kantinum við sem mestu hnjaski. Þannig er gasinu í deiginu ýtt út í kantinn sem verður til þess að hann lyftist betur.
Raðið sósu, osti, rifinni önd, ítölsku pastakryddi, bökuðum tómötum og rauðlauk á pizzuna. Saltið smá.
Takið heita ofnplötuna úr ofninum (farið varlega) og dragið pizzzuna á ofnpappírnum á heita plötuna. Bakið í neðstu grind í ofni í 12-15 mín eða þar til pizzan er orðin fallega gyllt.
Toppið pizzuna með klettasalati og balsamikgljáa.
Þessi færsla er unnin í samstarfi með Vínnes ehf
Comments