Vel krydduð kjúklingalæri og laukur, bakað í ofni í gómsætri Tikka Masala sósu þar til kjúklingalærin eru nánast farin að detta í sundur, toppuð með kasjúhnetum og kóríander og borin fram með túrmerik hrísgrjónum.
Þetta er algjör veisla og er bara eins og að vera mættur til Nýju Dehli! ...eða svona næstum því.
Fenugreek var einu sinni fáanleg mulið frá Pottagöldrum en ég hef ekki séð það í svolítinn tíma. Það er hægt að fá mjög góð fenugreek fræ frá Kryddhúsinu og mala þau sjálf/ur en það má líka sleppa þeim í þessari uppskrift.

Fyrir 3-4:
Kjúklingalæri (skinn & beinlaus), 800 g
Tikka Masala krydd, 4 tsk / Kryddhúsið
Laukur, 1 stk
Kókosmjólk, 1 dós (400 g) / Mér þykir Thai Choice kókosmjólkin best
Tikka Masala kryddmauk, 60 g / Pataks, líka rosa gott að nota td Bhuna eða Korma
Kjúklingakraftur, 1 teningur
Fenugreek, 2 tsk / Kryddhúsið (Rosa gott en má sleppa)
Hunang, 1 msk
Kóríander, 8 g
Kasjúhnetur, 30 g
Basmati hrísgrjón, 2 dl
Túrmerik, 1 tsk / Kryddhúsið
Setjið kjúklingalærin í skál með svolítilli olíu, Tikka Masala kryddi og 1 tsk af salti. Blandið vel saman og leyfið að marinerast í svolitla stund.
Hrærið saman kókosmjólk, Tikka Masala kryddmauk, kjúklingakraft, hunang og fenugreek.
Setjið 3 dl af vatni í lítinn pott ásamt túrmerik og svolitlu salti og náið upp suðu. Bætið hrísgrjónum út í pottinn, náið aftur upp suðu og lækkið þá hitann svo það rétt kraumi í. Látið malla undir loki í 14 mín, takið pottinn svo af hitanum og látið standa undir loki í 10 mín.
Hitið ofn upp í 200 °C með blæstri. Skerið lauk í strimla og veltið honum upp úr smá olíu.
Dreifið kjúklingalærunum yfir stórt eldfast mót, dreifið lauknum svo yfir og bakið í miðjum ofni í 18 mín. Hellið sósunni yfir og meðfram kjúklingalærunum og bakið áfram í 20-25 mín
Saxið kóríander og grófsaxið kasjúhneturnar. Dreyfið hnetum og kóríander yfir réttinn þegar hann kemur úr ofninum.
Berið fram með hrísgrjónum, mangó chutney og naan brauði.
Sæl Laufey, ég set hann beint út í kókosmjólkina án þess að leysa hann upp í vatni. Annars verður sósan of þunn.
Á að leysa kjúklingateniinginn í sjóðandi vatni t. ð 1/2 líter samkvæmt leiðbeiningum á pakka og bæta þvi við kókosmjólkina eða barra óleystur teningur ?