top of page

Mexíkósk pönnu baka með kjúkling og rjómaosti

Updated: Apr 28, 2019

Ljúffeng kjúklingalæri elduð í bragðmikilli kryddsósu með maís, svartbaunum og rjómaosti. Toppuð með smjördeigi og svo bökuð þar til deigið er stökkt og fullkomið.


Þesssi réttur er algjör negla og slær alltaf í gegn þegar hann er borinn á borð, en mér þykir alveg ómissandi að hafa lárperu, kóríander, sýrðan rjóma og góða hot sauce með.



Kjúklingalæri (Skinn & beinlaus), 650 g

Laukur, 1 stk

Santa Maria taco krydd, 3 msk / Tæplega 3/4 af pakkanum

Oregano, 0,5 msk

Hvítlauksduft, 0,5 tsk

Chipotle mauk, 2 tsk / Santa Maria

Salsa sósa, 300 g

Rjómaostur, 60 g

Maísbaunir, 60 g

Svartbaunir, 60 g

Smjördeig, 4-5 plötur / Findus, fæst í Hagkaup

Lárpera, eftir smekk

Kóríander, eftir smekk

Sýrður rjómi, eftir smekk

Hot sauce, eftir smekk

 
  1. Hitið ofn í 220 °C með yfir og undir hita.

  2. Sneiðið lauk í strimla og skerið kjúkling í bita. Hitið olíu í pönnu við frekar háan hita og brúnið kjúklinginn vel. Setjið kjúklinginn svo á disk til hliðar. Þetta er best að gera í tveimur skömmtum svo kjúklingurinn steikist sem best.

  3. Lækkið hitann aðeins og steikið laukinn þar til hann byrjar að mýkjast. Bætið þá kjúklingnum, taco kryddi, hvítlauksdufti, oregano, chipotle mauki, salsa sósu og rjómaosti út á pönnuna og látið malla rólega í nokkrar mín. Útbúið deigið á meðan rétturinn mallar.

  4. Rúllið smjördeigið út svo það sé rétt rúmlega stærra að flatarmáli en pannan. Það er best að gera með því að raða plötunum á bökunarpappír þannig að þær liggi örlítið ofan á hvor annari, leggja aðra örk af bökunarpappír yfir og rúlla deigið svo út í hæfilega stærð.

  5. Hrærið maís og svartbaunum saman við réttinn á pönnunni og slökkvið á hitanum. Smakkið til með salti (eða meira taco kryddi).

  6. Leggið deigið varlega yfir pönnuna og skerið auka deigið frá. Þrýstið deiginu svo niður meðfram innri kannti pönnunar svo það liggi þétt upp að kjúklingnum. Klippið eða skerið X í miðju deigins til þess að hleypa gufunni út og pennslið deigið með ólífuolíu.

  7. Bakið í botninum á ofninum í 20 mín eða þar til deigið er orðið fallega gyllt og stökkt.

  8. Berið fram með lárperu, kóríander, sýrðum rjóma og ykkar uppáhalds hot sauce.

Yorumlar


bottom of page