top of page

Marokkóskar lambabollur með bulgur salati og dill sósu

Updated: May 11, 2019

Ljúffengar Marokkóskar lambabollur kryddaðar með Harissu, cumin, ferskri myntu og smásöxuðum rúsínum, bornar fram með fersku bulgur salati og hvítlauks dill sósu.


Þessar bollur eru alveg geggjaðar og þessi réttur er í raun sáraeinfaldur í framkvæmd, en mér þykir þægilegast að baka/grilla þessar bollur í ofninum á meðan ég útbý sósuna og geri bulgur salatið.


Gott ráð við að gera bollur er að vigta blönduna og deila svo heildarþyngdinni með þyngdinni sem þú vilt hafa á bollunum. Svo hefurðu skálina með blöndunni á vigtinni á meðan þú mótar bollurnar. Þannig getur þú tekið akkúrat rétt magn af kjöti í einu þegar mótar bollurnar og séð til þess að allar bollurnar séu jafn stórar/þungar og eldist því jafnt.


Þessi uppskrift er fyrir þrjá.

Lambabollur:

Lambahakk, 440 g

Fetaostur í kryddlegi, 30 g

Rúsínur, 25 g

Harissa mauk (Al'fez), 7,5 ml

Cumin, 7,5 ml

Hvítlauksduft, 3,5 ml

Maldon salt, 6 ml

Fersk mynta, 5 g

Egg, 1 stk

Brauðraspur, 30 ml

  1. Smásaxið myntu og rúsínur. Setjið lambahakkið og restina af hráefnunum fyrir bollurnar í skál og blandið vel saman.

  2. Myndið 19-20 bollur úr blöndunni, sirka 30 g hver og raðið á bökunarpappírsklædda ofnplötu.

  3. Bakið á 220 °C á grill stillingu í næst efstu hillu í ofninum í um 12 mín eða þar til bollurnar eru fallega brúnaðar og eldaðar í gegn.

 

Bulgur salat:

Bulgur, 1,8 dl

Ferskur kóríander, 10 g

Ferskt dill, 6 g

Fetaostur í kryddlegi, 75 g

Kirsuberjatómatar, 100 g

  1. Sjóðið bulgur eftir leiðbeiningum á pakka með smá salti.

  2. Skerið tómata í bita og saxið kóríander og dill.

  3. Blandið öllu saman í skál ásamt fetaostinum.

 

Hvítlauks dill sósa:

Majónes, 50 ml

Sýrður rjómi, 50 ml

Ferskt dill, 2 g

Hvítlauksduft, 2 ml

  1. Saxið dill og hrærið saman við majónes, sýrðan rjóma, hvítlauksduft og salt eftir smekk.

Kommentare


bottom of page