top of page

Kóreskar ramen núðlur með kjúkling, eggjum og grænmeti

Virkilega bragðmikill og skemmtilegur núðluréttur úr ferskum ramen núðlum með kjúklingalærum, græmmeti og eggjum. Þetta er ekta matur að mínu skapi og ég geri þennan rétt oft þegar ég er í stuði fyrir eitthvað heitt/spicy og bragðmikið.


Fersku ramen núðlurnar fást hjá Fiska á Nýbýlavegi og Hólagarði en þær eru að mér þykir alveg ómissandi í þennan rétt. Ég á alltaf nokkrar pakka af ferskum ramen og udon núðlum uppi í skáp sem er frábært að grípa í og útbúa snöggan kvöldmat.


Ef þið eruð ekki búin að kíkja þangað þá mæli ég með því að skoða úrvalið hjá þeim.

Fyrir 2:

Skinn & beinlaus kjúklingalæri, 400 g

Gochujang (Korean red pepper paste), 1 msk / Fæst í Fiska á Nýbýlavegi

Sesamolía, 2 tsk / Fæst í Fiska á Nýbýlavegi

Hoisin sósa, 2 msk / Fæst í Fiska á Nýbýlavegi

Mirin, 2 tsk / Fæst í Fiska á Nýbýlavegi

Hvítlaukur, 2 rif

Engifermauk, 1 tsk / Eða ferskt engifer rifið á rifjárni

Soya sósa, 1 msk + meira eftir smekk

Egg, 2 stk

Spínat, 50 g

Vorlaukur, 2 stk

Kóríander, 6 g

Radísur, 3 stk

Sesamfræ, 2 tsk

Ferskar ramen núðlur, 2 pakkar (360 g) / Fást í Fiska á Nýbýlavegi

 
  1. Setjið Gochujang, sesamolíu, Hoisin sósu, engifermauk og 1 msk soya sósu í skál og pressið 2 hvítlauksrif saman við. Hrærið vel þar til allt hefur blandast vel saman.

  2. Skerið hvítu og ljósgrænu endana á vorlauknum í ekkert sérstaklega þunnar sneiðar. Sneiðið dekkri endana þunnt og geymið til hliðar til að strá yfir réttinn að lokum. Sneiðið radísur þunnt og saxið kóríander.

  3. Brjótið eggin 2 í skál og pískið með gaffli þar til rauðan hefur samlagast hvítunum og skerið kjúklingalærin í bita.

  4. Hitið olíu á pönnu við frekar háan hita. Bætið kjúklingalærunum út á pönnuna þegar hún er orðin vel heit og steikið þar til þau eru farin að brúnast. Bætið hvítu og ljósgrænu pörtunum af vorlauk út á pönnuna. Steikið í um 1 mín en hrærið vel á meðan.

  5. Færið kjúklinginn og vorlaukinn til hliðar á pönnunni og hellið pískaða egginu á auða blettinn á pönnunni. Bíðið í smástund þar til eggið er farið að þéttast og hrærið þá aðeins í því til að brjóta það upp. Hrærið því svo saman við kjúklinginn og vorlaukinn.

  6. Bætið sósunni út á pönnuna og hrærið vel saman. Bætið spínati út á pönnuna og hrærið vel þar til það er farið að mýkjast. Lækkið þá hitann á pönnunni aðeins.

  7. Losið núðlurnar í sundur í höndunum og bætið út á pönnuna. Hrærið vel í þar til núðlurnar eru vel huldar sósunni og búnar að hitna í gegn. Smakkið til með salti og meiri soya sósu eftir smekk.

  8. Hrærið radísum og kóríander saman við réttinn á pönnunni og toppið með sneiddum vorlauk og sesamfræjum.

Comments


bottom of page