top of page

Kóresk steikt hrísgrjón

Ég er ótrúlega hrifinn af þessum rétti, en hann er fullkomin leið til að klára afgangs grjónin sem eiga það til að verða til eftir hvert einasta skipti sem það eru hrísgrjón með matnum.


Ekki láta skrefafjöldann hræða ykkur því rétturinn er enga stund að verða til. Það má nota hvaða nautasteik sem er í réttinn en það þarf bara að skera hana nokkuð þunnt. Gochujang fæst svo í Vietnam Market á suðurlandsbraut og eflaust á fleiri stöðum, enda landsmenn komnir á bragðið.


 

Nautasteik, 250 g

Soðin basmati hrísgrjón, 2 bollar (eða 160 ml ósoðin)

Maíssterkja, 15 ml

Soya sósa, 25 ml

Fiskisósa, 7.5 ml

Sesamolía, 7.5 ml

Hlynsýróp, 10 ml

Gochujang (kóreskt chili mauk), 20 ml

Vorlaukur, 2 stk

Egg, 2 stk

Spínat, 40 g

Baunaspírur (Mung), 40 g

Sesam fræ eftir smekk

Sriracha sósa eftir smekk

Kóríander eftir smekk

 
 1. Sjóðið hrísgrjón eftir leiðbeiningum á pakka ef þið eigið þau ekki til soðin, en það er samt best að nota hrísgrjón frá því deginum áður í þessa uppskrift.

 2. Hrærið saman maíssterkju við fiskisósuna, sesamolíuna og 15 ml af soyasósunni.

 3. Skerið nautakjötið í þunnar sneiðar, hrærið maíssterkjublöndunni saman við kjötið og látið marinerast í 10 mín.

 4. Aðskiljið eggjarauðurnar frá hvítunum eða pískið eggin saman ef þið kunnið ekki við að borða hráa eggjarauðuna.

 5. Skerið vorlauk í sneiðar og spínat gróflega. Geymið svolítið af græna part lauksins til að skera sem skraut yfir diskinn.

 6. Hitið 1 msk af olíu á pönnu við frekar háan hita. Bætið kjötinu út á pönnuna, dreifið vel úr því og ekki hreyfa við því í 30 sek. Snúið bitunum við og steikið þar brúnaðir á hinni hliðinni, sirka 30-60 sek. Takið af pönnunni og geymið til hliðar.

 7. Lækkið hitann ögn og bætið 1 msk af olíu út á pönnuna. Setjið vorlaukinn út á og hrærið vel í smástund þar til hann er farinn að mýkjast og ilma. Bætið þá gochujang út á og steikið í 30 sek. Bætið grjónunum næst út á pönnuna og brjótið þá upp og hrærið í þeim þar til grjónin eru vel þakin og rauð.

 8. Færið öll grjónin til hliðar á pönnunni og bætið 1 msk af olíu á auða helminginn. Hellið eggjahvítunni (eða eggjahrærunni ef þið viljið ekki hráa rauðuna) út á pönnuna og látið krauma þar til eggið er farið að þéttast. Hrærið í egginu í smástund og hrærið svo saman við hrísgrjónin.

 9. Færið allt á pönnunni aftur til hliðar og setjið spínatið og baunaspírurnar á auða endann. Hrærið í grænmetinu þar til það er farið að mýkjast og hrærið því þá saman við hrísgrjónin.

 10. Hrærið hlynsýrópinu og restinni af soyasósunni saman við hrísgrjónin ásamt nautakjötinu. Smakkið til með salti.

 11. Skiptið réttinum á milli tveggja skála og setjið eggjarauðuna í miðju hvers disks. Toppið með skornum vorlauk, kóríander, sesamfræum og Sriracha sósu.
Comments


bottom of page