Gómsætar andabringur með stökkri fitu, silkimjúku sellerírótar purée og rauðrófum og sætkartöflum sem eru fyrst bakaðar og svo smjörsteiktar með timianlaufum. Fullkomin máltíð yfir hátíðarnar eða hvenær sem gera á vel við sig.
Fyrir 2:
Andabringur, 2 stk (sirka 350 g hver)
Rauðrófa, 300 g
Sæt kartafla, 300 g
Sellerírót, 500 g / Hýðið ekki talið með
Smjör, 30 g
Rjómi, 30-50 ml
Timian ferskt, 4 g
Stillið ofn á 180 °C með blæstri.
Takið öndina úr kæli og notið beittann hníf til þess að skera krosslaga mynstur í fituna. Því þéttara sem mynstrið er því auðveldara er að gera fituna stökka og ljúffenga. Varist að fara alla leið í gegnum fituna og skera í kjötið. Þetta er best að gera með mjög beittum hníf og á meðan fitan er enn svolítið köld og stinn. Saltið fituhliðina rausnarlega og kjöthliðina aðeins minna. Piprið báðar hliðar og geymið á disk til hliðar.
Skrælið og skerið sellerírótina í bita og sjóðið í um 30 mín eða þar til bitarnir eru orðnir mjúkir. Hellið úr pottinu í gegnum sigti og látið sellerírótina gufa í sigtinu í nokkrar mín.
Setjið sellerírótina aftur í pottinn ásamt um 20 g af smjöri og 30 ml af rjóma. Maukið með töfrasprota þar til blandan er orðin silkimjúk. Bætið við restinni af rjómanum og maukið áfram ef sellerírótar purée‘ið er of þykkt. Smakkið til með salti. Geymið undir loki og velgið upp undir vægum hita rétt áður en maturinn er borinn fram.
Skerið rauðrófuna í tvennt og vefjið inn í álpappír. Setjið rauðrófuna á ofnplötu með bökunarpappír og bakið í um 40-50 mín eða þar til hún er mjúk í gegn.
Skrælið og skerið sætu kartöfluna í bita. Veltið upp úr smá olíu og salti og setjið inn í ofn þegar um 25-30 mín eru eftir af bökunartíma rauðrófunar svo sætu kartöflurnar og rauðrófan verði tilbúnar á sama tíma eða þar til bitarnir eru orðnir mjúkir og aðeins farnir að taka lit.
Skrælið rauðrófuna og skerið í svipaða bita og sætu kartöfluna. Geymið sætu kartöfluna og rauðrófuna til hliðar þar til í skrefi 11.
Setjið eldfast mót inn í ofn og leyfið því að hitna á meðan unnið er í öðru.
Leggið andabringurnar á kalda pönnu með skinnhliðina niður og stillið pönnuna á miðlungshita. Steikið öndina á skinnhliðinu í um 8 mín eða þar til skinnið er orðið fallega gyllt og stökkt. Fleytið reglulega fitunni sem rennur úr skinnhliðinni úr pönnunni og í skál til hliðar, en andafituna er gott að geyma og nota td til þess að steikja kartöflur með.
Steikið kjöthliðina á öndinni í um 1 mín til þess að loka henni og færið öndina svo í forhitaða eldfasta mótið með skinnhliðina niður. Bakið bringurnar í 8-10 mín eða þar til kjarnhiti kjötsins hefur náð 56°, en þá er gott að notast við kjöthitamæli. Leyfið öndinni að hvíla um 5-10 mín áður en hún er skorin í sneiðar og borin fram.
Bræðið um 10 g af smjöri á pönnu og steikið bökuðu sætu kartöfluna og rauðrófuna við miðlungshita á meðan öndin bakast. Saxið timian laufin og hrærið saman við kartöfluna og rauðrófuna á pönnunni og steikið áfram í nokkrar mín. Smakkið til með salti.
Berið fram með fersku salati til hliðar.
Comments