Þessi einfalda en sérstaklega ljúffenga kjúklingasúpa yljar manni um hjartaræturnar og slær alltaf í gegn þegar boðið er upp á hana.
Það má nota hvaða núðlur sem er í uppskriftina (styðjist þá við eldunarleiðbeiningar frá framleiðanda) en mér þykir best að nota ferskar ramen núðlur.
Fyrir 2-3: Kjúklingalæri (skinn & beinlaus), 400 g
Kókosmjólk, 400 ml / Ég notaði Thai Choice
Ferskar ramen núðlur, 2 pakkar / Fæst í Fiska
Vatn, 300 ml
Massaman karrýmauk, 30 g / Fæst í Fiska
Límóna, 1 stk
Vorlaukur, 2 stk
Gulrót, 60 g
Blaðlaukur, 50 g
Kóríander, 6 g
Púðursykur, 2 msk
Kjúklingakraftur (duft), 2 tsk
Karrý de lux, 2 msk / Pottagaldrar
Túrmeric, 1 tsk
Engifermauk, 1 tsk / Eða 1 tsk rifinn ferskur engifer
Steiktur skalottlaukur, 30 g / Fæst í Fiska
Forhitið ofn í 180C með blæstri.
Veltið kjúklingalærunum upp úr olíu, 1 msk af Karrý de lux og svolitlu salti. Raðið kjúklingalærunum á ofnplötu með bökunarpappír og bakið í miðjum ofni í 30-35 mín.
Sneiðið hvíta og ljósgræna partinn af vorlauknum (geymið dekkri partinn), skerið gulrót í tvennt langsum og svo í skífur og skerið blaðlaukinn í tvennt langsum og svo í þunna strimla.
Hitið smá olíu í potti og steikið vorlaukinn, gulræturnar og blaðlaukinn við miðlungshita þar til gulræturnar eru byrjaðar að mýkjast.
Bætið karrýmauki, kjúklingakraft, engifer, restinni af Karrý de lux og túrmerik út í pottinn og steikið í smástund.
Bætið kókosmjólk, 300 ml af vatni og púðursykur út í pottinn og látið malla rólega í um 10 mín. Smakkið til með salti og góðri kreistu af límónusafa.
Lækkið hitann á pottinum. Losið ramen núðlurnar varlega í sundur með höndunum og bætið út í pottinn. Látið núðlurnar hitna í gegn og mýkjast í nokkrar mín.
Saxið kóríander og sneiðið dekkri partinn af vorlauknum í þunnar sneiðar. Rífið kjúklinginn í sundur með 2 göfflum.
Skiptið núðlunum og súpunni á milli skála og toppið með rifnum kjúkling, steiktum skalottlauk, vorlauk og kóríander og kreistið smá límónusafa yfir.
Comments