top of page

Tagliatelle með ítalskri kryddpylsu og sveppum

Bragðmikil sterk krydduð ítölsk grillpylsa, rjómi, hágæða pasta og hellingur af parmesan gera þetta að einum af mínum eftirlætis pastaréttum og ég er viss um að hann muni slá í gegn hjá þér líka.

Kryddpylsan sem ég nota í þennan rétt er framleidd hér á íslandi af fyrirtækinu Tariello, sem er staðsett á Hellu og bæði framleiðir og flytur inn hágæða ítalskar vörur. Ef þið finnið ekki sterk krydduðu ítölsku pylsuna þá má nota venjulegu salsiccia pylsuna frá Tariello í staðin með mjög góðum árangri.

Fyrir 2-3:

Ítölsk grillpylsa (sterk krydduð), 300 g / Tariello, fæst í Hagkaup, Krónunni og Melabúðinni

Eggja tagliatelle, 250 g

Laukur, 100 g

Sveppir, 100 g

Hvítlaukur, 2 rif

San Marzano tómatar, 1 dós / 400 g

Hvítvín, 1 dl

Kjúklingakraftur, 1 tsk

Herbs de Provence krydd, 1 tsk

Hvítlauksduft, 0,5 tsk

Rjómi, 80 ml

Parmesan ostur, 20 g

Steinselja, 8 g

Klettasalat, 30 g

 
 1. Takið utan af pylsunum og stappið kjötið með gaffli.

 2. Saxið lauk, rífið eða skerið sveppi í litla bita og pressið hvítlauk.

 3. Hitið olíu á pönnu eða í steypujárns potti við meðalháan hita og steikið sveppina þar til þeir eru farnir að brúnast aðeins. Lækkið hitann ögn, bætið lauk út á ásamt smá salti og steikið þar til laukurinn er orðinn glær og mjúkur (varist að brúna laukinn), bætið pressuðum hvítlauk út á og steikið áfram í 1 mín til viðbótar.

 4. Hækkið hitann og bætið kjötinu út í. Steikið og hrærið reglulega í þar til kjötið er fulleldað og aðeins byrjað að brúnast. Bætið hvítvíni út í og látið sjóða niður í smástund.

 5. Kremjið tómatana með höndunum og bætið út í ásamt vökvanum úr dósinni.

 6. Bætið kjúklingakraft, provance kryddi, hvítlauksdufti, 1 tsk af flögusalti og rjóma út í.

 7. Rífið helminginn af parmesan ostinum út í og stillið hitann á miðlungshita. Látið malla undir loki í 10 mín og svo án loks í 15-20 mín eða þar til kjötsósan hefur þykkst hæfilega.

 8. Sjóðið pasta eftir leiðbeiningum framleiðanda á meðan kjötsósan mallar en takið um 0,5-1 dl af pastavatninu frá áður en því er hellt frá pastanu.

 9. Hækkið hitann undir kjötsósunni og bætið smjörklípu út í sósuna. Bætið því næst nokkrum msk af pastavatninu út í kjötsósuna en látið sjóða vel á milli. Sterkjan í pastavatninu mun hjálpa til við að láta sósuna loða betur við pastað þegar öllu er blandað saman.

 10. Saxið steinselju og hrærið saman við kjötsósuna ásamt tagliatelle og rífið parmesan ost saman við.

 11. Berið fram með klettasalati og rifnum parmesan osti.

Comments


bottom of page