Það er fátt betra en góð súpa þegar það er byrjað að kólna úti og þessi bragðsterka tælenska kjúklinga núðlusúpa tikkar í öll boxin á köldum vetrarkvöldum. Það skemmir heldur fyrir að hún tekur ekki nema um 25 mín frá byrjun til enda! Sumum gæti þótt hún of heit fyrir sinn smekk þegar þeir smakka hana í pottinum en hún mildast töluvert þegar núðlurnar og meðlætið eru komin saman í skálina. Þó skal hafa í huga að karrímauk eru mis heit og því gott að nota mögulega aðeins minna, smakka sig til og bæta svo við eftir smekk.
Stökki skalottlaukurinn setur algjörlega punktinn yfir i'ið fyrir mig með þessa súpu og ég mæli eindregið með því að fólk geri verði sér út um hann eða geri sinn eiginn.
Kjúklingalæri (skinn og beinlaus), 350 g
Eggjanúðlur, 2 hreiður
Rauðlaukur, 1 stk
Límóna, 1 stk
Fiskisósa, 15 ml
Púðursykur, 15 ml
Rautt karrímauk, 70 g / Ég notaði May Ploy frá Fiska.is
Karrí masala duft, 7,5 ml
Kóríander mulinn, 7,5 ml
Turmeric, 7,5 ml
Kókosmjólk, 400 ml
Kjúklingakraftur, 1 teningur
Vatn, 450 ml
Sósujafnari, 1-2 msk eða eftir smekk
Radísur, 2 stk
Vorlaukur, 1 stk
Kóríander, 3 g
Thai basil, 3 g (eða venjulegt basil) / Fæst hjá Fiska.is
Djúpsteiktur skalottlaukur, eftir smekk / Fæst hjá Maithai.is hjá Hlemmi
Hitið um 1 msk af olíu í potti við miðlungshita og steikið karrímaukið í um 2 mín. Hrærið stanslaust. Varist að hafa of háan hita svo maukið brenni ekki við botninn.
Bætið karrídufti, muldum kóríander og turmeric út í og hrærið stanslaust í um 30 sek.
Bætið helmingnum af kókosmjólkinni út í og hrærið vandlega saman við karrímaukið þar til kókosmjólkin þykkist ögn, sirka 2 mín.
Skerið hvert kjúklingalæri í um 4-5 bita og bætið út í pottinn. Látið malla í um 5 mín.
Skerið rauðlauk í strimla. Bætið rauðlauk, restinni af kókosmjólkinni, fiskisósu, safanum úr hálfri límónu, púðursykri, kjúklingatening og vatni út í.
Látið súpuna malla á vægum hita svo það rétt kraumi í pottinum á meðan kjúklingurinn klárar að eldast og núðlurnar eru soðnar, 10-15 mín.
Bætið sósujafnara við súpuna eftir smekk og látið malla í smástund þar til súpan þykkist.
Sjóðið núðlur eftir leiðbeiningum. Sneiðið radísur og græna partinn af vorlauk þunnt. Saxið kóríander og basil.
Berið súpuna fram toppaða með radísum, vorlauk, thai basil, kóríander, límónubát og helling af stökkum skalottlauk.
Comments