top of page

Súkkulaðibitasmákökur með karamellu og pekanhnetum

Þessar súkkulaðibitasmákökur sprengja alla skala í ljúffengheitum og eru álíka ávanabindandi og heróín. Sérstaklega þegar maður parar þær við ískalt glas af mjólk.


Stökkar að utan en samt "chewy" með súkkulaði, hnetubitum og karamellu, algjörlega ómótstæðilegar!

Fyrir 28-30 kökur:

Sykur, 60 g

Púðursykur, 275 g

Ósaltað smjör, 200 g / Við stofuhita

Egg, 2 stk

Vanillustöng, 1 stk

Hveiti, 250 g

Flögusalt, 3,5 g

Matarsódi, 5 g

Súkkulaði 56%, 150 g

Pekanhnetur, 50 g

Karamellur, 75 g

 
  1. Grófsaxið súkkulaði og pekanhnetur og skerið karamellur í litla bita.

  2. Hrærið smjör, sykur og púðursykur í hrærivél þar til blanda er mjúk og kremkennd.

  3. Skerið upp vanillustöng og skafið fræin innan úr.

  4. Bætið eggjum og vanillufræjum út í og hrærið þar til allt hefur samlagast.

  5. Bætið þurrefnum út í og látið vélina ganga þar til deig hefur myndast.

  6. Hrærið súkkulaði, pekanhnetum og karamellum saman við deigið og kælið svo í 1 klst.

  7. Hitið ofn í 160 °C.

  8. Hnoðið 9x 40 g kúlur og raðið með góðu millibili á bökunarpappírsklædda ofnplötu (kökurnar breiða töluvert úr sér við bakstur). Geymið restina af deiginu í kæli á meðan kökurnar bakast.

  9. Fletjið kúlurnar aðeins niður með lófanum og bakið svo í 10-12 mín eða þar til kökurnar eru orðnar fallega gylltar og brúnar í köntunum. Leyfið kökunum að kólna í nokkrar mín áður en þær eru fjarlægðar varlega af bökunarplötunni.

  10. Endurtakið með restina af deiginu.


コメント


bottom of page