Baka sem þarf ekki að baka? Hvað er eiginlega í gangi hérna?
Þessi desert er algör snilld þegar maður vill slá aðeins um sig en ekki eyða öllum deginum í það, en það tekur ekki nema svona 15 mín að græja bökuna (fyrir utan biðtíma á meðan botninn jafnar sig).
Það má toppa bökuna með hverju sem er en mér þykir hún best með pistasíuhnetum, berjum og smá hunangi.
Sambærilegt bökuform og ég nota fæst í Kokku, en ég mæli klárlega með því að að fjárfesta í formi með lausum botni fyrir þessa uppskrift.
270 g súkkulaði kremkex (Ég notaði Crawstons)
85 g ósaltað smjör
330 ml nýmjólk
1 pakki Royal vanillubúðingur
Bláber
Pistasíuhnetur
Hunang
Setjið kexið í matvinnsluvél og látið vélina ganga þar til kexið er mjög fínt saxað. Færið það þá í skál.
Bræðið smjörið í örbylgjuofni og blandið því vandlega saman við kexið.
Þrýstið kexblöndunni þétt í 20 cm bökuform með lausum botni. Gott er að nota td glas eða bolla með flötum botni til að þrýsta blöndunni að köntunum og smjörhníf til að þrýsta blöndunni niður á móti til þess að fá sem sléttastan kannt. Setjið inn í ísskáp og kælið í 30 mín.
Hrærið búðingnum saman við 330 ml af nýmjólk og bíðið í stutta stund. Búðingurinn verður loftmikill þegar hann byrjar að setjast en það þarf því að hræra loftið úr honum áður en honum er dreift bökuna.
Geymið bökuna í kæli en takið hana út um 30 mín áður en það á að bera hana fram svo það sé auðveldara að ná henni úr forminu.
Saxið pistasíuhnetur og dreifið yfir bökuna ásamt ferskum jarðaberjum og hunangi rétt áður en hún er borin fram.
Comments